Stuðningur Íslands „vanhugsuð aðgerð“

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir að stuðningur Íslands við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum sé afar vanhugsuð aðgerð. Hún geti snúist gegn sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar.

„Það er mikilvægt bæði fyrir Ísland og Rússland og alþjóðasamfélagið að þessar þjóðir eigi áfram gott samstarf og fjölþætt viðskipti eins og þær hafa átt áratugum saman,“ segir hann í pistli á vef sínum.

Eins og kunnugt er hafa stjórnvöld í Rússlandi ákveðið að út­víkka inn­flutn­ings­bann á matvöru þannig að það nái til Íslands, Alban­íu, Svart­fjalla­lands, Liechten­stein og að gefn­um ákveðnum skil­yrðum, Úkraínu.

Jón telur að með þátttöku sinni í óskilgreindum refsiaðgerðum séu Íslendingar að breyta um stefnu frá hlutleysi sem þeir hafi annars jafnan fylgt í slíkum málum allt frá stofnun sjálfstæðis landsins.

Viðskiptaþvinganirnar séu nú algjörlega á fosendum Evrópusambandsins sjálfs og Íslendingar virðist engan hlut eiga að máli við undirbúning þeirra. Ekkert mat virðist hafa verið lagt fyrirfram á tilgang þeirra, áhrif eða afleiðingar.

„Viðskiptafrelsi hverrar þjóðar er hornsteinn sjálfstæðis hennar og ákvarðanir í þeim efnum eiga að takast á heimavelli en ekki sem taglhnýtingar annarra þjóða eða ríkjasambanda,“ nefnir hann.

Markaðir í Rússlandi mikilvægir

Hann bendir á að svo virðist sem Evrópusambandið gefi út yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd um stuðninginn við refsiaðgerðirnar. Íslendingar hafi að jafnaði ekki tekið þátt í þvingunaraðgerðum stórveldanna en verið boðberar sjálfstæðis, friðar, sátta og mannréttinda á alþjóðavettvangi.

Þá séu markaðir fyrir makrílafurðir í Rússlandi og öðrum Austur- Evrópulöndum okkur miklivægir. „Um 30 milljarða tekjur af makríl á ári fyrir Ísland skiptu sköpum í endurreisn efnahagskerfisins eftir hrun,“ nefnir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert