„Það þarf að byggja undir skannann“

Íslensk erfðagreining gefur ríkinu jáeindaskanna.
Íslensk erfðagreining gefur ríkinu jáeindaskanna. mbl.is/Styrmir Kári

Pétur H. Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans, segir væntanlegan jáeindaskanna á spítalann mikla búbót. „Það er talað um að skannarnir verði komnir í notkun eftir 18 mánuði. Ég vona að við getum farið að nota þá eftir 18 mánuði eða tvö ár,“ segir Pétur við mbl.is.

Eins og komið hefur fram afhenti Íslensk erfðagreining íslensku þjóðinni fjárframlag að andvirði um 740 milljónum íslenskra króna til kaupa og uppsetningar á jáeindaskanna. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd ríkisins en Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti honum hana.

„Það þarf auðvitað að byggja undir þennan skanna og það verður drifið í því. Viðbygging mun rísa á lóðinni og það hafa verið lögð drög að nýrri byggingu,“ segir Pétur aðspurður hvar skanninn yrði staðsettur.

Jáeindaskannar hafa rutt sér mjög til rúms við sjúkdómsgreiningar síðustu ár en skanninn veitir betri greiningar en aðrir sambærilegir skannar og sparar fjármagn og vinnu. Enginn slíkur skanni er fyrir á Landspítalanum en lengi hefur verið rætt um kaup á einum slíkum. 

Skanninn er mest notaður til að greina krabbamein og illkynja sjúkdóma og bætir greiningu þeirra mjög. „Það gerir greiningarnar nákvæmari og betri,“ segir Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert