„Það er ljóst að framlag kvenna til samfélagsins í stóru og smáu hefur ekki verið metið til verðleika í gegnum tíðina, og afrek hafa verið skilgreind út frá mjög karllægu sjónarhorni. Markmiðið er að gera þessum afrekum kvenna góð skil og sýna fram á fjölbreytileika þeirra,“ segir Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, um afrekasýningu kvenna sem opnuð verður í Ráðhúsi Reykjavíkur í september.
Á sýningunni verður gerð grein fyrir framlagi kvenna til samfélagsins, persónulegum og pólitískum sigrum, afrekum kvenna í hversdagslífi og á opinberum vettvangi. „Markmiðið er að draga fram stóra og smáa sigra kvenna með óhefðbundnum hætti og ná þá fram upplýsingum sem hefur ekki verið haldið til haga eins og þessum hefðbundnu afrekum og gera þeim skil með eins skemmtilegum hætti og mögulegt er,“ útskýrir Sóley.
Sýningin verður með fjölbreyttu sniði, notast verður við myndir, texta, hljóð- og myndupptökur og annað það sem fólki kann að detta í hug til að koma afrekunum sem best til skila. Sóley segir vonir standa til þess að gera sem allra flestum konum skil með einhverjum hætti á sýningunni.
Þá verður einnig fjallað um hinar hefðbundnu afrekakonur eins og Vigdísi Finnbogadóttur. „Við sáum það til dæmis í kynjuðu greiningunni sem var gerð á Þjóðminjasafninu að Vigdísi Finnbogadóttur voru ekki gerð skil í grunnsýningu safnsins þó það nái fram til okkar daga,“ segir Sóley um nærtækt dæmi þess að afrekum kvenna sé ekki gert nógu hátt undir höfði.
„Þar hanga jafnframt uppi ýmiss konar prestklæði og hempur en hvergi kemur fram hverjir unnu þau þrátt fyrir að um mjög merkilegt handverk sé að ræða. Það er bara fjallað um þetta sem búning á karllæga stétt í stað þess að geta þess hvernig þetta er gert,“ segir hún og bætir við að einnig sé fjallað um vaðmál á safninu sem mikilvæga útflutningsvöru, en hvergi sé þess getið hver vann vaðmálið. „Þetta er aðeins ein sýning af mörgum sem við sjáum og áttum okkur kannski ekki á að séu karllægar.“
Þá segist hún einnig hafa leitað upplýsinga um það hver fann upp þeyttan rjóma, og hverjum datt í hug að nýta innmat og herða fisk til að lifa af, en slík afrek séu hvergi skráð. „Þetta hafa sjálfsagt allt verið konur en þær eru ekki nafngreindar fyrir sín afrek.“
Reykjavíkurborg óskar nú eftir frásögnum af afrekum kvenna, sögum af konum sem hafa með beinum eða óbeinum hætti haft áhrif á eigið líf eða annarra, tekist á við erfið eða óvenjuleg verkefni eða afrekað eitthvað annað sem gaman væri að miðla til sýningargesta. Hvort sem um er að ræða saumakonu, húsfreyju, skíðameistara, jógakennara, kokk, vélstjóra, bankastjóra eða móður eiga allar sögur sem gætu falið í sér afrek upp á pallborðið.
„Við leggjum höfuðáherslu á það núna að fá sögur af þessum hversdagslegu afrekum og því sem konur hafa verið að gera. Sendendur skilgreina afrekin sjálfir og það er ekkert sem við útilokum. Við viljum bæði fá sögur af ömmunum sem afrekuðu eitthvað stórkostlegt sem engum gæti dottið í hug að væri mögulegt í dag, og einnig samtímakonum sem eru að fást við ýmis krefjandi verkefni,“ segir Sóley. „Hefðbundin skilgreining á afrekum er úrelt. Þau þurfa að taka mið af fjölbreytileika samfélagsins, fjölbreytileika karla og kvenna.“
Tekið er á móti sögum af afrekskonum til 24. ágúst næstkomandi. Hægt er að senda ábendingar um afrekskonur á netfangið afrekasyning@reykjavik.is og jafnframt á á síðunni www.afrekskonur.is.
Afrekskonur from Playmo on Vimeo.