Hafa unnið í því að bæta tjónið

Evrópusambandið hefur aðstoðað einstaka lönd og greinar við að bæta …
Evrópusambandið hefur aðstoðað einstaka lönd og greinar við að bæta tjónið sem hefur hlotist af viðskiptabanninu. AFP

Evrópusambandið hefur deilt út tugum milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum til einstakra landa og greina til að bæta tjónið sem hlotist hefur af viðskiptabanni Rússa. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópusambandsins sem gefin var út af Evrópuþinginu í október á síðasta ári.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vekur athygli á skýrslunni, en hún styður undir þau orð ráðherrans að viðskipta­bann Rússa muni hafa al­var­legri áhrif hér á landi en ann­ars staðar. Hann sagði í samtali við mbl.is í gær að ekkert annað land hefði jafn mikið undir og Ísland, en Rússlandsmarkaður hefur í áratugi verið mjög mikilvægur fyrir sjávarafurðir Íslendinga og stendur undir um 5% af vöruútflutningi þjóðarinnar.

Í kjölfarið sagði Ei­rík­ur Berg­mann Ein­ars­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, það ekki gefa rétta mynd að halda því fram að deilan væri Íslendingum kostnaðarsömust allra. Önnur ríki innan Evrópusambandsins ættu í mun meiri viðskiptum við Rússland, og þá ekki aðeins vöruviðskiptum. Umfang þessara viðskipta væru meiri hjá öðrum ríkjum en Íslandi.

Eiríkur nefndi Eystra­salts­rík­in; Eist­land, Lett­land og Lit­há­en sérstaklega auk Rúm­en­íu, Búlgaríu og Finn­lands og sagðist telja „þetta vera meiri búsifjar fyrir þau lönd en okkur“. Í skýrslunni kemur fram að þessi ríki, auk nokkurra til viðbótar, séu talin koma verst út úr viðskiptabanninu, en skýrslan er gerð í október á síðasta ári, þegar viðskiptabannið náði ekki enn til Íslands. Sambandið hafi þó gert ráðstafanir til að minnka tjónið hjá þessum löndum, og greitt út milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum til þess.

Rúmlega 50 milljarðar króna í neyðarráðstafanir

„Frá því í ágúst 2014 hefur framkvæmdastjórn ESB kynnt ýmsar ráðstafanir til að bæta ástandið sem hlotist hefur af viðskiptabanninu,“ segir í skýrslunni. Þar á meðal deildi sambandið út 32,7 milljónum evra úr sameiginlegum sjóðum til ferskju og nektarínu framleiðanda í ágúst á síðasta ári. Þá var allt að 125 milljónum evra deilt út til að fjármagna frjálsa dreifingu á viðkvæmum ávöxtum og grænmeti til annarra áfangastaða en Rússlands. Í september í fyrra ákvað framkvæmdastjórnin einnig að veita 165 milljónum evra í pökkun á viðkvæmum ávöxtum og grænmeti. Þá hefur sambandið veitt mjólkurframleiðendum aðstoð auk þess sem 30 milljónum evra til viðbótar var veitt til aðstoðar landbúnaðarframleiðslu. Samtals eru upphæðirnar rúmlega 50 milljarðar íslenskra króna.

Evrópuþingið lokaði á neyðarráðstafanirnar þegar kom að viðkvæmum ávöxtum og grænmeti og mjólkurvörum í september á síðasta ári vegna misnotkunar á aðstoðinni. Í framhaldinu óskuðu lönd innan sambandsins, svo sem Eystrasaltsríkin, Pólland, Grikkland, Spánn og Kýpur, eftir frekari aðstoð og fjölbreyttari sem sneri meðal annars að sjávarafurðum. Þingið kallaði í kjölfarið eftir frekara eftirliti, fleiri úrræðum og meiri nýtingu á sameiginlegum sjóðum.

73% bannaðra vara frá Evrópusambandsríkjum

Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki ásamt ríkjum í NATO hafa beitt Rússa efnahagsþvingunum vegna innlimunar Krím-skaga og stríðsins í Úkraínu. Ísland og fleiri ríki hafa stutt aðgerðir Evrópusambandsins þrátt fyrir að eiga ekki aðild að því. Rússar hafa bannað innflutning ýmissa matvæla frá Evrópusambandsríkjum, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi og Kanada, en löndin sem bættust nú við á listann eru Albanía, Svartfjallaland, Ísland, Liectenstein og Úkraína.

Fyrir útflytjendur í Evrópu er Rússland annar mikilvægasti kaupandi landbúnaðarafurða á eftir Bandaríkjunum, en samkvæmt skýrslunni voru viðskiptin metin upp á 11,3 milljarða evra árið 2013, en 5,1 milljarður tapaðist vegna viðskiptabannsins. Evrópusambandsríki verða fyrir mestum áhrifum, en 73% bannaðra vara koma þaðan. Þau lönd sem einna helst verða fyrir barðinu á viðskiptabanninu eru löndin á Balkanskaga, og þar einna helst Litháen, auk Finnlands, Póllands, Þýskalands og Hollands.

Í skýrslunni kemur fram að umfang efnahagslegra- og atvinnufarslegra áhrifa muni ráðast af því hvort vörurnar verði bannaðar til annarra markaðssvæða. Til að mynda hafi aðeins hluti svínakjöts sem flytja átti til Rússlands í janúar 2014, verið komið á nýjan áfangastað í september 2014. Þá kemur fram í skýrslunni að ekki hafi augljós aukning orðið á atvinnuleysi í löndunum sem hafa beitt viðskiptabanninu.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir ekkert land hafa jafn mikið undir …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir ekkert land hafa jafn mikið undir og Ísland.
Ekki er ljóst hvort bannið hafi áhrif á makrílsölu Íslendinga …
Ekki er ljóst hvort bannið hafi áhrif á makrílsölu Íslendinga til Rússlands. mbl.is/Albert Kemp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert