Leið á að tala alltaf á Facebook

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, vill breyta því hvernig valið …
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, vill breyta því hvernig valið verður í forystu flokksins. mbl.is/Eggert

Fundur Bjartrar framtíðar sem haldinn var í gærkvöldi var viðbragð við því að margir innan flokksins voru orðnir leiðir á því að tala á Facebook, að sögn Guðmundar Steingrímssonar, formanns flokksins. Hann segir breytingar á flokksstarfinu ekki hafa verið til umræðu á fundinum.

Flokkurinn hefur virst vera í tilvistarkreppu eftir slakt gengi í skoðanakönnunum undanfarið. Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður flokksins og fyrrverandi stjórnarformaður hans, lýsti því yfir um síðustu helgi að hún væri tilbúin að taka við formennskunni ef vilji væri fyrir því.

Sjálfur viðraði Guðmundur hugmyndir um breytingar á skipulagi flokksins í færslu á Facebook-síðu sinni á mánudag, meðal annars að embætti innan hans yrðu látin ganga á milli flokksmanna. Þannig yrði hann sjálfur ekki lengur formaður nema þegar röðin kæmi að honum.

Þessar hugmyndir voru hins vegar ekki til sérstakrar umræðu á fundinum, að sögn Guðmundar, en hann sóttu stjórnarmenn og fólk af framboðslistum Bjartrar framtíðar sem vinna meðal annars saman í gegnum lokaðan hóp á Facebook.

„Þetta var bara hreinskiptið og gott spjall eins og gerist jafnan hjá okkur. Þetta var í raun og veru bara viðbragð við því að margir voru orðnir leiðir á því að tala alltaf saman á Facebook. Stundum grípur mjög marga þörf til þess að hittast frekar. Það er bara mjög sniðug hugmynd sem ég mæli með,“ segir Guðmundur.

Hittingar bæði í net- og kjötheimum

Næst á dagskrá flokksins er ársfundur sem fer fram í Reykjanesbæ laugardaginn 5. september. Guðmundur segir að tillagan sem hann nefndi um breytingar á skipulagi flokksstarfsins verði lögð fyrir ársfundinn. Tillagan sé ekki hans í sjálfu sér heldur hafi hún sprottið upp á meðal flokksmanna.

„Það er bara mjög mikið að gera þangað til hann verður og þarf örugglega marga og alls konar hittinga, bæði í net- og kjötheimum,“ segir Guðmundur spurður að því hvað gerist í málefnum flokksins fram að að ársfundinum.

Fyrri fréttir mbl.is:

Tilfinningaríkur fundur Bjartrar framtíðar

Vill ekki taka þátt í formannsslag

Tilbúin að taka við Bjartri framtíð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka