Mikið misræmi í áhrifum refsiaðgerða

Ákvörðun um að samþykkja þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi …
Ákvörðun um að samþykkja þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi var rædd í ríkisstjórn, en Sigmundur segir að framlenging aðgerðanna hafi ekki verið rædd. Mynd/Golli

Það er töluvert misræmi í þeim áhrifum sem Ísland verður fyrir af refsiaðgerðum Rússa og því sem Rússar verða fyrir vegna stuðnings Íslands við aðgerðir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi. Þá eru áhrifin fyrir Ísland meiri en hjá flestum eða öllum öðrum löndum vegna þess hversu matvælaframleiðsla er hlutfallslega stór hluti af útflutningi landsins. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is í dag.

Þátttaka Íslands hefur líklega minnstu áhrifin á Rússland

Sigmundur ræddi fyrr í dag við Dmi­try Med­vedev, for­sæt­is­ráðherra Rúss­lands og segist hann hafa rætt þetta misræmi í áhrifum aðgerða við hann. „Þetta er töluvert áfall því þetta skiptir okkur svo miklu máli efnahagslega og raunar að því er virðist lang mestu máli af þeim löndum, flestum eða öllum sem hér eru undir,“ segir Sigmundur.

Í samtali þeirra segir Sigmundur að Medvedev hafi lagt megináherslu á að Rússar hafi ekki verið fyrri til að innleiða þvingunaraðgerðir. „Ég benti aftur á móti á að þátttaka Íslands í þvingunaraðgerðum ESB og Bandaríkjanna hefði líklega minnstu efnahagslegu áhrifin af öllum löndunum sem er um að ræða. Reyndar líklega engin efnahagsleg áhrif þar sem við erum ekki í vopnaviðskiptum eða öðru sem fellur undir þetta bann,“ segir hann.

Eðlilegt að Rússar bregðist við

Sigmundur segir að þótt menn hafi getað haft raunhæfar væntingar til þess að Ísland yrði ekki sett á bannlista Rússlands, þá hafi verið eðlilegt að Rússar hafi brugðist við. Bannið komi þó illa við Íslendinga og misræmið þar halli mikið á Ísland. Bendir Sigmundur á að þjóðir eins og Þjóðverjar geti áfram flutt inn vélar, verkfæri og bíla til Rússlands og þannig hafi refsiaðgerðir Rússa lítil áhrif á margar aðrar þjóðir í Evrópusambandinu. „Stór hluti útflutningsvöru Íslands eru matvæli og Rússland er hlutfallslega stór markaður,“ segir Sigmundur.

Ákvörðunin rædd í ríkisstjórn en ekki endurnýjunin

Evrópusambandið og Bandaríkin samþykktu þessar þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi í fyrra og í kjölfarið var farið að ræða um hvort Ísland og sex önnur ríki myndu styðja þær. Í október var það formlega kynnt og segir Sigmundur að ákvörðunin hafi verið rædd meðal ríkisstjórnarinnar. Hann segir að stjórnvöld hafi byggt þátttöku sína á EES samningnum og að það hafi verið sambærilegt við tugi reglugerða sem hafi verið samþykktar til að innleiða viðskiptaþvinganir á grundvelli samningsins á síðustu 20 árum.

Í ár tilkynnti Evrópusambandið svo um endurnýjun þvingananna. Sigmundur segir að það hafi ekki verið sérstaklega rætt í ríkisstjórninni, en að það eigi við um flestar slíkar endurnýjanir sem gerist jafnan sjálfkrafa. Segir hann muninn í þessu máli vera þau miklu viðskipti sem séu á milli Rússlands og Íslands.  

Tryggingar fyrir útflutningsfyrirtæki líklegasti stuðningurinn

Í máli Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, í gær kom fram að yfirvöld myndu jafnvel skoða að koma til móts við útflutningsfyrirtæki væri óskað eftir því. Sigmundur tekur undir þetta með Gunnari. „Meðan unnið er að þessu vilja stjórnvöld gera hvað þau geta til að aðstoða þá sem verða fyrir áhrifum af þessari ákvörðun.“

Aðspurður í hverju slíkur stuðningur sé fólginn segir Sigmundur að líklegast væri það í formi trygginga af hálfu ríkisins. Segir hann það líklegra en um beinan fjárstuðning, eins og var gert í ríkjum Evrópusambandsins. Segir hann að aðstaða Íslands til að veita beina styrki sé erfið vegna umfangs málsins og hlutfallslegrar stærðar þess í íslensku efnahagslífi, samanborið við áhrifin í löndum Evrópusambandsins.

Ekki rætt sérstaklega um breytingar á veiðigjöldum

En hafa verið skoðaðar einhverjar fleiri leiðir í þessum efnum, svo sem breytingar á veiðigjöldum? „Við höfum ekki verið að ræða það sérstaklega, en hins vegar má það vera ljóst að það koma lítil veiðigjöld fyrir fisk ef mann sjá ekki hag af því að veiða hann og ef verðið lækkar mikið verður erfiðara að greiða veiðigjöldin,“ segir Sigmundur og bætir við að aðgerðir Rússa geti haft áhrif á líf almennings, ekki bara sjávarútvegsfyrirtækjanna, sérstaklega í ákveðnum byggðarlögum.

Sigmundur bendir einnig til þeirra tolla sem eru á ýmsar íslenskar fiskafurðir til ríkja Evrópusambandsins, svo sem makríls sem hefur verið stór þáttur í útflutningi Íslands til Rússlands. Segir hann háa tolla sambandsins skjóta skökku við og að utanríkisráðherra hafi átt viðræður við ráðamenn þess í dag og muni gera grein fyrir stöðunni á næstunni.

Raunhæfar væntingar um að vera utan listans

Forystumenn í sjávarútveginum hafa undanfarna daga verið harðorðir vegna viðskiptabannsins og meðal annars sagt að stjórnvöld hefðu átt að sjá bann sem þetta fyrir og bregðast við og hafa meira samráð við sjávarútveginn áður en ákvörðun um áframhald þvingananna var tekin.

Sigmundur segir að undanfarið ár hafi viðskipti útflutningsfyrirtækja aukist mikið við Rússland og það hafi nýst greininni vel að hafa ekki lent á bannlista Rússa fyrr. „Hins vegar gátu menn, jafn stjórnvöld sem og þessi fyrirtæki, haft raunhæfar væntingar um að við yrðum áfram utan listans,“ segir hann og vitnar til misræmisins í viðskiptahagsmunum Íslands og annarra landa á listanum, eins og greint var frá fyrr í fréttinni. Sagði hann jafnframt að rétt sé að fyrirtæki séu upplýst um stöðu mála í svona málum og í framhaldinu verði aukin samskipti við sjávarútvegsfyrirtækin.

Útflutningur á makríl til Rússlands skiptir tugum milljarða á ári …
Útflutningur á makríl til Rússlands skiptir tugum milljarða á ári og því getur bannið haft mikil áhrif fyrir útflutningsfyrirtæki.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir eðlilegt að Rússar hafi brugðist við. …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir eðlilegt að Rússar hafi brugðist við. Mikið misræmi sé þó í áhrifum á Ísland miðað við þau sem Rússland verði fyrir. Mynd/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka