„Viðsjárverðir tímar víðsvegar“

Ráðherra ræddi við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Ráðherra ræddi við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Eva Björk

„Það eru auðvitað viðsjárverðir tímar víðsvegar í heiminum. Og efnahagsástand dapurt. Og það hefur reynst erfitt til að mynda að selja makríl, ekki bara til Rússlands og Austur-Evrópu heldur einnig til Afríku vegna gjaldeyrisskorts í þeim löndum. Þannig að við þurfum auðvitað að horfa til þess að tímarnir eru viðsjárverðir í heiminum nú eins og oft áður.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag, spurður að því hvort það væri raunhæft fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að treysta á Rússlandsmarkað yfir höfuð í ríkjandi pólitísku ástandi.

Eins og kunnugt er hafa stjórnvöld í Rússlandi bætt Íslandi á lista yfir ríki þaðan sem innflutningur er bannaður. Sigurður Ingi sagði stöðuna vissulega erfiða en fyrir lægi að fara vel yfir málið og eiga samráð við Rússa annars vegar og hagsmunaaðila heima fyrir hins vegar.

Spurður um þá gagnrýni að stjórnvöld hefðu ekki haft samráð við sjávarútvegsfyrirtækin þegar ákvörðun var tekin um þátttöku í aðgerðum bandamanna segir ráðherrann að fundað hafi verið með þeim í utanríkisráðuneytinu. Þá benti hann á að einstakir hagsmunaðilar á einstaka sviðum móti ekki utanríkisstefnu heillar þjóðar.

En kemur til greina að breyta um stefnu?

„Nú erum við fyrst og fremst að taka samtalið við Rússa um í hverju þetta felst nákvæmlega. Og það hefur komið fram, m.a. í samskiptum mínum við sendiherrann í gær, að um tímabundnar aðgerðir er að ræða og við þurfum auðvitað að horfa til lengri tíma. Og hins vegar þurfum við að skoða það hér heima fyrir með hvaða hætti þetta hefur áhrif á einstaka byggðir, einstök fyrirtæki og á þjóðarbúið í heild sinni, því það er margt sem bendir til að þetta geti haft veruleg áhrif á það.“

Ráðamenn hafa lagt áherslu á samstöðu Íslands með bandamönnum í refsiaðgerðum gegn Rússlandi en spurður að því hvort það komi til greina að semja um það við bandamenn að komið verði til móts við Íslendinga, t.d. með lækkun tolla, segir Sigurður ekki óeðlilegt að Íslendingar sitji við sama borð og aðrir.

Hann játar því að hafa áhyggjur af stöðunni og segir að samskipti við útgerðina verði með „skýrari hætti“ þegar vinna hefjist við að meta það tjón sem er að verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert