Sturla Friðriksson erfðafræðingur lést á líknardeild Landspítalans í gær, 93 ára að aldri.
Sturla fæddist í Kaupmannahöfn 27. febrúar 1922, sonur Friðriks Jónssonar kaupmanns og Mörtu Maríu Bjarnþórsdóttur. Hann varð stúdent frá MR 1941, lauk bakkalárs- og mastersprófi í erfðafræði frá Cornell-háskóla 1946 og doktorsnámi við Saskatchewan-háskóla 1961.
Frá árinu 1951 vann Sturla hjá búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands, var deildarstjóri jarðræktardeildar hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins frá 1965 og var settur forstjóri hennar 1973 til 1974. Sturla var framkvæmdastjóri erfðafræðinefndar Háskóla Íslands frá stofnun 1965 fram til 1992.
Sturla var mikill náttúruunnandi og starfaði að fjölbreyttum vísindarannsóknum og félagsstarfi á því sviði. Eftir hann liggur mikið efni um upphaf lífs í Surtsey. Sturla var félagi í Vísindafélagi Íslendinga og formaður Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright frá 1965-2005 auk þátttöku í öðru félagsstarfi.
Sturla lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Laxdal, dóttur þeirra Sigrúnu Ásu, þrjú barnabörn og þrjú barnabarnabörn.