Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er niðurstaða Gæðaráðs háskóla á Íslandi sú að takmarkað traust sé borið til þess að Háskólinn á Bifröst geti tryggt að prófgráður sem skólinn veitir standist gæðakröfur.
Allir aðrir háskólar á Íslandi hafa verið metnir svo að gæðaráðið beri traust til þess að þeir geti tryggt gæði prófgráða.
Vilhjálmur Egilsson, rektor háskólans á Bifröst, segir að skýrsludrögin, þar sem niðurstöðurnar koma fram, séu trúnaðarmál og að um alvarlegt trúnaðarbrot sé að ræða. Drögin séu í umsagnarferli hjá Háskólanum á Bifröst, sem mun gera verulegar athugasemdir við þau, en hann geti ekki tjáð sig efnislega um málið að svo stöddu.