Vegna eftirgjafa á vörugjöldum bílaleigubíla hefur ríkissjóður orðið af rúmum tveimur milljörðum króna það sem af er þessu ári samkvæmt upplýsingum tollstjóraembættisins.
Á sex ára tímabili frá árinu 2010 nemur þessi upphæð níu milljörðum króna samtals, auk 2,3 milljarða virðisaukaskatts. Um 150 bílaleigur eru með starfsleyfi og hefur fjöldi bílaleigubíla þrefaldast á síðustu fimm árum. Rúmlega 18.000 bílaleigubílar eru nú skráðir.
Bílaleigubílar fá eftirgjöf af vörugjöldum en almennt er skylt að greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum. Fyrirhugað er að endurskoða vörugjöldin, einfalda kerfið og draga úr ívilnunum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.