„Í ættfræðigrunninn okkar í dag eru komin 778.642 manns og tengistuðullinn er 93,68%,“ segir Oddur F. Helgason, ættfræðingur, framkvæmdastjóri og aðaleigandi ORG-ættfræðiþjónustunnar.
Hann verður gestur í þætti Jóns Kristins Snæhólm á sjónvarpsstöðinni ÍNN á mánudaginn, kl. 21.00 og aftur 24. ágúst kl. 20.00.
Þar verður farið yfir starf Odds í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar og þar með talin gögn um Vestur-Íslendinga. Grunnurinn nær til forfeðra og afkomenda hérlendis og erlendis og segir Oddur það ómögulegt að átta sig á hversu mörg lönd séu nú þegar hluti af grunninum.