Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hún bjóði sig fram í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fram fer í haust. Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði að hún að sú ákvörðun yrði alfarið byggð á því hvort hún ætli í framboð fyrir næstu alþingiskosningar árið 2017.
„Þá ákvörðun tek ég fyrst,“ sagði hún.
Ólöf var varaformaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2010 til 2013 en hún ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningunum 2013 og hætti sem varaformaður á landsfundi í aðdraganda þingskosninga.
Hún tók síðan við embætti innanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 4. desember 2014 eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér.
Ólöf sagði að áhugi sinn á stjórnmálum hefði síst minnkað að undanförnu. En mikilvægt væri að hafa í huga að einstakir þingmenn eða ráðherrar réðu ekki örlögum sínum sjálfir, kjósendur gerðu það.
Hún hefði enn enga ákvörðun tekið um pólitíska framtíð sína, þó svo að hún hefði stigið „þetta pólitíska skref með því að stíga sköllótt í ráðherrastól“. Ljóst væri þó að hún myndi ekki taka ákvörðun um hvort hún færi í framboð aðeins „tíu dögum fyrir kosningar“. Aðdragandinn þyrfti að vera lengri. Það væri stóra ákvörðunin.
Aðspurð sagðist hún hafa fundið það í samtölum við fólk, ekki einungis við nánustu samstarfsmenn í Sjálfstæðisflokknum, heldur við marga í samfélaginu, að það væri almenn ánægja með að hún væri komin aftur til baka. „Mér þykir mjög vænt um það.“