Enginn skortur á „stórgrósserum“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins,
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins,

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir í dag málflutning Ásmund­ar Friðriks­sonar, þingmanns Sjálf­stæðis­flokks­ins, varðandi deiluna við Rússland þar sem Ásmundur hafði lagt til að látið yrði af stuðningi við viðskiptaþvinganir á Rússland. Segir Karl í pisli sínum á Eyjunni að það sé þyngra en tárum taki að hlýða á röksemdafærslu Ásmundar.

Karl segir engan skort á „stórgrósserum og fylgitunglum þeirra á Íslandi sem eru tilbúnir til að selja sálu sína fyrir aurinn.“ Segir hann þessa menn tilbúna að fórna mannréttindum og lýðræði fyrir stundargróða og þá skipti engu máli þó að 7.000 manns hafi látið lífið í Úkraínu, milljónir séu á vergangi, alþjóðasamningar brotnir og fullveldi Evrópuríkis fótum troðið með innrás annars ríkis.

„Að gefa eftir í málefnum Úkraínu væru skelfileg skilaboð. Ef við getum ekki staðið með þjóðum sem búa við ofríki nágranna sinna sem virða ekki alþjóðasamninga, þá skulum við ekki gera kröfur um stuðning annarra þjóða næst þegar við þurfum á slíku að halda,“ segir Karl í pistlinum og hrósar að lokum Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, fyrir framgöngu sína í málinu.

Gunnar Bragi gagnrýndi í morgun hvernig sumir útgerðarmenn hefðu talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Sagði hann að ef menn tækju eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá væri rétt að velta því fyrir sér hvort þeir væru bestu mennirnir til að fara með auðlindina og kallaði í leiðinni eftir að útflytjendur myndu sýna samfélagslega ábyrgð í þessu máli.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Karl gagnrýndi afstöðu hans varðandi deiluna …
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Karl gagnrýndi afstöðu hans varðandi deiluna við Rússa. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka