Mikið hefur sést af hvölum í Eyjafirði það sem af er sumri og muna menn vart eftir betra sumri.
Í tilkynningu frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Ambassador segir að sést hafi til hvala í nær 100 prósent ferða þeirra í sumar og að ekki sé óalgengt að farþegar sjái 10 til 15 hnúfubaka í kringum bátinn.
Fyrirtækið ákvað að festa sjónarspilið á filmu og fékk Arctic Bird Eye til að koma með í hvalaskoðunarferðir og taka upp myndband með hjálp drónaflaugar sem náði mikilli nálægð við dýrin.
Útkoman er vægast sagt stórkostleg en sjón er sögu ríkari.