Evrópustofu, upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins á Íslandi, verður lokað 1. september. Þetta kemur fram á vefsíðu hennar en samningur um rekstur hennar rennur út í lok ágúst. Starfsmenn Evrópustofu þakka Íslendingum samfylgdina undanfarin ár og lýsa þeirri von sinni að þeir haldi áfram að fylgjast með starfsemi Evrópusambandsins hér á landi.
Evrópustofa tók til starfa í upphafi árs 2012 í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Rekstur hennar hafði áður verið boðinn út og í kjölfarið samið við íslenska almannatengslafyrirtækið Athygli og þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta. Athygli sagði sig frá verkefninu á síðasta ári og var öllum starfsmönnum Evrópustofu sagt upp störfum. Media Consulta hefur síðan eitt séð um reksturinn.
Samningurinn um rekstur Evrópustofu var til tveggja ára með fjárframlagi upp á allt að 1,4 milljónir evra eða rúmlega 200 milljónir króna. Samkvæmt samningnum var heimilt að framlengja hann um tvö ár til viðbótar. Það er fram á þetta ár. Tekin var ákvörðun um það af hálfu Evrópusambandsins að bjóða rekstur Evrópustofu ekki út á nýjan leik.