„Fyrstu fréttir voru á þá leið að alger samstaða væri í utanríkismálanefnd Alþingis og ríkisstjórninni um þátttökuna í viðskiptaþvingunum gegn Rússum en eftir að fjölmiðlar fóru að fjalla um málið hafa efasemdir komið fram hjá ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þar á meðal hjá formanni flokksins.“
Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um ákvörðun rússneskra stjórnvalda að setja Ísland á lista yfir ríki sem sæta viðskiptaþvingunum af hálfu Rússlands og viðbrögð íslenskra ráðamanna við þeim tíðindum. Stefanía segir að svo virðist sem stjórnvöld hér á landi hafi engan veginn verið undir það búin að Rússar tækju ákvörðun um að beita Ísland viðskiptaþvingunum vegna stuðnings landsins við viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja undir forystu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússlandi. „Stjórnvöld virðast ekki hafa verið búin að undirbúa viðbrögðin við þeirri stöðu sem nú er komin upp. Hvað annað ætti að gera ef útflutningur til Rússlands stöðvaðist,“ segir hún.
Ekki sérhagsmunir útgerðarinnar
Stjórnvöld hafa óskað eftir viðræðum við Evrópusambandið um lækkanir á tollum á sjávarafurðum til ríkja sambandsins til þess að vega upp á móti því tjóni sem Ísland verður fyrir vegna viðskiptaþvingana Rússa. Meðal annars makríl. Stefanía bendir á að alls óljóst sé hvernig Evrópusambandið taki í slíkt. Ekki síst í ljósi þess að Íslendingar hafi átt í deilum við sambandið um makrílveiðar. Þá sé Ísland ekki lengur umsóknarríki að sambandinu.
„Þarna eru auðvitað miklir hagsmunir í húfi og núna vakna menn upp við vondan draum. Það er ekki hægt að segja að þarna séu aðeins einhverjir sérhagsmunir útgerðarinnar á ferðinni. Ef útflutningstekjur upp á rúmlega 30 milljarða króna tapast kemur minni gjaldeyrir inn í landið sem setur ákveðinn þrýsting á krónuna og sem varðar hagsmuni alls þjóðarbúsins. Skatttekjur tapast og störf geta tapast. Nema það takist að opna aðra markaði,“ segir hún.
Samskipti ríkja snúast um hagsmuni
Stefanía rifjar upp löndunarbann Breta á íslenskar útgerðir í Þorskastríðunum. Þá hafi verið brugðist við með því að hefja útflutning til Sovétríkjanna og auka útflutning til annarra ríkja. Þannig séu ýmis dæmi í sögu Íslands þar sem Íslendingar hafi þurft að fara eigin leiðir í utanríkismálum til þess að verja hagsmuni þjóðarinnar þó oftar en ekki hafi verið farin sú leið að eiga samflot með öðrum vestrænum ríkjum í þeim efnum.
„Við erum aðilar að NATO og Evrópska efnahagssvæðinu og þó hagsmunir fari yfirleitt saman er það auðvitað ekki alltaf raunin,“ segir hún. Íslendingar hafi í gegnum tíðina verið frekar harðir við að verja sína hagsmuni enda sé það í raun skylda hvers ríkis. Samskipti ríkja snúist að miklu leyti um hagsmuni þeirra. Fyrir vikið sé alls óvíst hvort Evrópusambandið sé reiðubúið að veita Íslendingum tilslakanir í tollamálum. Það eigi eftir að koma í ljós.
„Hins vegar er spurning hvort það breytti einhverju þó Ísland drægi til baka stuðning sinn við viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum. Það kann að vera liður í hernaðarvæðingu Rússlands og þjóðernisstefnu þarlendra stjórnvalda að styrkja í sessi rússneska matvælaframleiðslu með því að draga úr vægi erlendra matvæla,“ segir Stefanía að lokum.