Notuðu rangar tölur

Fulltrúar SFS mæta á samráðsfundinn í dag.
Fulltrúar SFS mæta á samráðsfundinn í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi funduðu í dag með stjórnvöldum vegna viðskiptaþvingana Rússa. Jens Garðar Helgason, formaður SFS, segir að fundurinn hafi verið nýttur til að stilla saman strengi, taka stöðuna og horfa til þess sem koma skal og að annar samráðsfundur verði strax á morgun.

„Við reynum að vinna að þessu í góðu samstarfi við stjórnvöld og vonumst til að það náist góð niðurstaða í þetta mál,“ segir Jens. Hann segir yfirvöld hafa stuðst við rangar tölur í upphafi og því vanmetið tjónið af gagnaðgerðum Rússa.

„Það sem menn höfðu til hliðsjónar voru þessar hagstofutölur þar sem ekki var reiknað með öllu þessu magni sem fer til Rússlands í gegnum önnur lönd. Sem dæmi fer 80 prósent af því sem fer til Litháen áfram til Rússlands. Um 40 prósent af því fiskmeti sem á fyrstu höfn í Rotterdam er að fara til Rússlands. Þegar þær tölur sem við í greininni höfum þekkingu á þá breytist þetta aðeins.“

Jens segir að opinberar tölur fyrir fiskútflutning til Rússlands árið 2014 hafi verið um 22 milljarða en að rauntölur hafi numið um 31 milljarði. Segir hann að í ár hafi verið gert ráð fyrir að þessi tala hækkaði til muna eða upp í 37 milljarða.

„En það þýðir lítið að velta þessu fyrir sér núna. Við þurfum bara að hugsa um það hvernig við bregðumst við þessu ástandi sem er í dag.“

Jens segir engar farsælar lausnir í sjónmáli og að nú sitji jafnt sveitarfélög sem sjávarútvegsfyrirtækin sveitt við að reikna til að átta sig á tekjutapi, fyrir hið opinbera, iðnaðinn og starfsfólk.

„Þetta er svo nýskeð að menn eru allir einhvern veginn að reyna að átta sig og teikna upp stöðuna eins og hún er.“

Jens Garðar Helgason
Jens Garðar Helgason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert