Nýtt kaffihús í Vesturbænum

Ritfangaverslunin Úlfarsfell á Hagamel 67.
Ritfangaverslunin Úlfarsfell á Hagamel 67. Eva Björk Ægisdóttir

Ritfangaverslunin Úlfarsfell á Hagamel 67 mun taka miklum breytingum á næstu vikum, en til stendur að opna bókakaffi samhliða rekstri verslunarinnar. Aníta Rut Harðardóttir, lögreglumaður til sextán ára, keypti nýverið verslunina. Hún er Vesturbæingur í húð og hár en fjölskylda hennar stofnaði Ísbúð Vesturbæjar og rak í 20 ár.

Bókakaffið mun leggja áherslu á kaffi og kökur. Að sögn Anítu er hugsunin með kaffihúsinu sú að fólk geti sest niður, tengst þráðlausu neti, lesið blöðin og fengið sér góðan kaffibolla í leiðinni. Hún segist leggja mikla áherslu á að kaffið sé gott, enda sé ekki hægt að fá góðan kaffibolla hvar sem er.

„Við erum að horfa á að kaffihúsið verði fullbúið í september. Kaffivélin er þó komin og við erum byrjuð að hella upp á ítalskt Segafredo-kaffi, sem er besta kaffi í heimi að mínu mati,“ segir Aníta og bætir svo við: „Við ætlum að leggja áherslu á að hafa besta kaffið í bænum. Það fer enginn kaffibolli héðan út nema hann sé fullkominn.“

Kaffi Vest var opnað fyrir ári í Vesturbænum og hefur notið talsverðra vinsælda. Aníta segir þó að kaffihúsin tvö verði ekki alveg eins. Stemningin verði rólegri í Úlfarsfelli og minni áhersla á mat. Þá leggur Aníta áherslu á að kjarnaþjónusta verslunarinnar muni halda áfram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert