„Stundum er eins og hér sé ekki eitt þjóðfélag, ekki ein þjóð í einu landi. Orðræðan er á stundum óvægin svo ekki sé meira sagt. Ekki síst á samfélagsmiðlunum sem við öll erum að feta okkur inn á,“ sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra í hátíðarræðu á Hólahátíð í gær. „Hætt er við að þar sé fleira látið flakka á lyklaborðinu fyrir framan tölvuskjáinn en gert yrði augliti til auglitis. Umræðan á spjallþráðum getur því á stundum orðið býsna hörð. Kannski hefur þessi þróun leitt af sér, að minnsta kosti í bili, afslappaðri samskipti en áður, sem í sjálfu sér kann að vera af hinu góða innan skynsamlegra marka.
Auðvitað erum við ekki sammála um allt og við eigum ekkert að vera það og það er ekkert eðlilegra en að umdeild mál fái mikla og þunga umræðu og gagnrýni – það má alls ekki skilja orð mín á þann veg að ég sé að kvarta undan henni, það geri ég ekki, en ég og við öll verðum alltaf að reyna að gagnrýna án þess að meiða.
Það er ekki hægt að ná samkomulagi um hluti sem við erum fullkomlega ósammála um. Þá gilda reglur lýðræðisins, að fyrir hendi sé lýðræðislegur meirihluti sem fer fyrir sinni stefnu, þó með fullri virðingu fyrir sjónarmiðum og rétti minnihlutans til að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri,“ sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra í hátíðarræðu á Hólahátíð í gær.
Hún segir Íslendinga sjá fram á bjartari tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá reyni á þolgæði okkar.
„Að hafa úthald til að bíða efir því að kornið safnist í hlöðurnar. Það skiptir öllu máli fyrir okkur Íslendinga á þessum tímapunkti að rasa ekki um ráð fram, heldur ljúka við að reisa efnahagslífið við eftir þær ágjafir sem við urðum fyrir í bankakreppunni. Að hafa þolinmæði og staðfestu til að taka á málum, standa gegn þenslu og auknum ríkisgjöldum en verja þess í stað þeim fjármunum sem til skiptanna eru til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og búa í haginn fyrir uppbyggingu komandi ára.
Um leið skulum við taka á móti nýjungum, nýta þá möguleika sem upplýsingabyltingin veitir okkur, á grundvelli þeirrar þjóðfélagsgerðar sem við byggjum á. Einn er sá lærdómur sem við getum dregið af frumkvöðlum hér að Hólum, og raunar öllum þeim sem á undan okkur gengu og lögðu grunn að þessu þjóðfélagi. Og það er viskan sem felst í því að hugsa langt fram í tímann. Sleppa því að hugsa bara fram að að næsta prófi, eða næstu mánaðamótum, næsta ári, nú eða næstu kosningum. Heldur langt fram og móta ákvarðanir dagsins í dag í ljósi þess hvaða þýðingu þær gætu haft fyrir komandi kynslóðir. Þannig er víst að okkur vegnar vel,“ sagði Ólöf Nordal meðal annars í ræðu sinni.