Orðljótur prestur þakinn húðflúrum

Lútherski presturinn Nadia Bolz-Weber.
Lútherski presturinn Nadia Bolz-Weber. Ljósmynd/Pastrix.is

Orðljótur, fyrrverandi eiturlyfjafíkill og heiðingi, uppistandari sem þakinn er húðflúrum. Í dag starfar Nadia Bolz-Weber sem lútherskur prestur í Bandaríkjunum og leggur stund á Crossfit. Hún segist ekki skilja hvernig hægt sé að vera prédikari án þess að hafa fyrst unnið sem uppistandari og lært þannig að sjá hið óvænta og kómíska í lífinu.

Weber er prestur lúthersku kirkjunnar House for All Sinners and Saints, í miðborg Denver Colorado og er annar tveggja fyrirlesara á ráðstefnu um kirkju og kristni sem fer fram í Langholtskirkju síðar í mánuðinum.

Lútherski presturinn Jodi Houge heldur námskeiðið ásamt Weber en hún er meðal annars þekkt fyrir að halda helgistundir á óhefðbundnum stöðum, líkt og á kaffihúsum og börum þar sem þátttakendur geta sötrað á bjór og sungið sálma.

Kirkja sem hún hefði áhuga á að sækja

Weber átti erfiða æsku og leiddir út í mikla áfengis- og fíkniefnaneyslu á unglingsárunum. Í viðtali við BBC fyrr á þessu ári sagði hún að þeim tíma hefði henni verið alveg sama þó hún léti lífið langt um aldur fram en breyting varð á lífi hennar þegar náinn vinur hennar lést.

Hún ákvað að stofna kirkju sem væri þess eðlis að hún hefði sjálf áhuga á að mæta þangað en áður hafði hún ekki fundið eina slíka. Markmið kirkju Weber er að ná til þeirra sem eru á einhvern hátt utanveltu í samfélaginu. Þess má geta að einn þriðji af söfnuðinum eru samkynhneigðir og transfólk.

Bók Weber Pastrix: The Cranky, Beautiful Faith of a Sinner&Saint, hefur verið á metsölulistum yfir trúarlegar bækur í Bandaríkjunum síðan hún kom út  í september 2013 en hún hefur meðal annars verið vinsæl meðal fíkla sem hafa lokið meðferð.

Prestar með dredda og húðflúr

„Þær eru báðar á hæfileikaríkar á sinn hátt í því að miðla tímalausum sannindum kristinnar trúar og lífssýnar á hátt sem nútímafólk tengir mjög vel við. Weber er sérstaklega fær þegar kemur að því að orða og skrifa um þessi tímalausu sannindi,“ segir Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur og einn af þeim sem koma að skipulagningu námskeiðsins, í samtali við mbl.is.

Grétar bendir á að það sé ekki aðeins nálgun þeirra á boðskap kristinnar trúar sem geri það að verkum að þær skeri sig úr á vissan  hátt, heldur sé útlit þeirra og hegðun heldur frábrugðið hinum „hefðbundnu“ lúthersku prestum sem starfi innan kirkjunnar. Houge er með dredda og Weber er þakin húðflúrum og báðar eru þær óhræddar við að segja það sem þeim finnst.

Skefur ekki utan af hlutunum

„Þær tala báðar mjög hreint út. Weber skefur ekki utan af hlutunum en tekst að orða hluti sem nútímafólki finnst fjarlægir í kristinni trú á hátt sem tengir betur og hittir beint í hjartastað. Það sama gildir hjá Houge nema hennar áhersla liggur í því að finna nýjar og skapandi leiðir til að vera kirkja, vera með helgihald og safnaðarstarf sem er ekki fast í gömlum formum,“ segir Grétar.

„Hún gerir mikið í því að kanna hvort kirkjan þurfi að vera bundin við kirkjuhúsið og fer þá gjarnan og hefur helgihald á óhefðbundnum stöðum, til dæmis á kaffihúsum og börum og finnur leiðir til að vera með helgihald sem passar, hún fer þangað sem fólkið fer.“

Svokölluð Bjór og sálmakvöld, eða „Beer and Hymns“ sem Houge hefur staðið fyrir eru til að mynda vinsæl en þá safnast fólk saman, pantar sér bjór og syngur sálma fram eftir kvöldi

„Við erum að fá þær hingað til að læra meira. Þær eru að gera áhugaverða hluti og þetta snýst um að finna leiðir til að tengja við þann samtíma sem kirkjan finnur sig í,“ segir Grétar.

Ráðstefnan fer fram í Langholtskirkju dagana 27. – 28. ágúst en hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vefsíðunni pastrix.is. Greitt er inn á ráðstefnuna en aðgangur verður ókeypis á lokaguðsþjónustu sem haldin verður kl. 16.15 í Langholtskirkju 28. ágúst en þar mun Weber prédika.



Jodi Houge.
Jodi Houge. Ljósmynd/Pastrix.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert