Síðasta flugeldasýningin í miðbænum?

Flugeldasýningin á hafnarbakkanum á Menningarnótt í fyrra.
Flugeldasýningin á hafnarbakkanum á Menningarnótt í fyrra. mbl.is/Eggert

„Þetta er líklega í síðasta skipti sem við getum skotið flugeldum í miðbæ Reykjavíkur svo við ætlum heldur betur að reyna að nýta okkur það,“ segir Sigga Soffía Níelsdóttir, danshöfundur og stjórnandi flugeldasýningarinnar á Menningarnótt. 

Er þetta í þriðja og síðasta sinn sem Sigga Soffía stýrir sýningunni, í sam­vinnu við Hjálp­ar­sveit skáta í Reykja­vík en það er Vodafone sem er bakhjarl sýningarinnar. Verkið ber heitið Stjörnubrim og himininn kristallast og er tvískipt, en Sigga Soffía mun endurskapa flugeldasýninguna á stóra sviði Borgarleikhússins í október með Íslenska dans­flokk­num.

„Það er mjög óvenjulegt á heimsmælikvarða að fá að sprengja svona í miðbæ með allt þetta fólk nálægt svo það verður líklega ekki svoleiðis áfram,“ segir hún, en flugeldasýningin sem er lokaatriði Menningarnætur hefur vakið mikla athygli síðustu þrjú árin.

Áhorfendur munu mynda stjörnuþoku

Yfir 1.000 bomb­ur og fjöldi skot­kaka verða notaðar við sýn­ing­una en skotið verður upp frá fimm stöðum í miðbæn­um, meðal ann­ars úr ná­grenni gamla hafn­argarðsins, í Hörpu­grunni, ofan af Toll­hús­inu og víðar, og kem­ur fjöldi fólks að fram­kvæmd sýn­ing­ar­inn­ar.

Sigga Soffía segir vonina þá að fá áhorfendur með í lið, en um miðbik sýningarinnar mun birtast nokkurs konar foss á Kolaportsplaninu og verða áhorfendur þá hvattir til að kveikja á vasaljósinu í símanum sínum. „Við ætlum að mynda litríka þoku sem minnir á stjörnuþoku og vonum að allir taki þátt svo við getum í sameiningu myndað stjörnubjartan himinn.“ 

Að meðaltali 80-100 þúsund manns eru í miðbænum á Menningarnótt, og segir Sigga Soffía því magnað sjónarspil geta myndast ef sem flestir taka þátt.

Dansarar munu flytja sama verkið

Sigga Soffía hefur velt feg­urðinni og mis­mun­andi skynj­un manns­ins á henni fyr­ir sér við undirbúning verksins. Kenn­ing­ar Forn-Grikkja um lög­mál líkt og gull­insniðið koma þar sér­stak­lega við sögu, líkt og spurn­ing­in: „Hvað er það eig­in­lega við flug­elda sem hef­ur heillað mann­inn í ald­araðir og fengið til að stara upp í him­in­inn?“

Hún hef­ur víða leitað við und­ir­bún­ing – meðal ann­ars kynnt sér kenn­ing­ar heim­spek­inga á borð við Plató og Arist­óteles auk þess að skoða sér­stak­lega teng­ingu stærðfræði og dans­smíða.

Sigga Soffía segir sýninguna í Borgarleikhúsinu svo verða hliðstæða flugeldasýningunni. „Þar verður sama verkið flutt af dönsurum svo fólk á að geta séð hliðstæður. Flugeldasýningin er í raun eins og dansverk, en rautt ljós sem dansar um himininn er eins og kona í rauðum kjól sem dansar um sviðið,“ segir hún.

„Búið að vera hrikalega skemmtilegt“

Eins og áður sagði hefur Sigga Soffía stýrt sýningunni undanfarin tvö ár, og segist hún hafa viljað ljúka þríleiknum á danssýningunni. Eins og margir muna eftir hringdu kirkjuklukkur um allt land inn flugeldasýninguna í fyrra, en þá nefndist verkið Töfrar. Kirkjuklukkur, í takt við strengjasveit við Arnarhól, töldu inn í dansverkið og spiluðu undir flugeldasýningunni. 

„Þetta er búið að vera alveg hrikalega skemmtilegt,“ segir hún um skipulagningu sýninganna. Aðspurð um framhaldið segist hún vera með mörg stór verkefni í bígerð og það sé aðeins spurning hvað komist næst upp á laggirnar. „En fólk má alltaf vera í sambandi ef því vantar góða flugeldasýningu.“

Sjá einnig: Áfram flugeldasýningar

Sjá einnig: Stærsta mannamót á Íslandi

Sigríður Soffía Níelsdóttir, danshöfundur og stjórnandi flugeldasýningarinnar á Menningarnótt.
Sigríður Soffía Níelsdóttir, danshöfundur og stjórnandi flugeldasýningarinnar á Menningarnótt.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert