Sjöfalt leiguverð miðað við miðbæinn

Nú er hægt að gista í vitanum í Dyrhólaey, en …
Nú er hægt að gista í vitanum í Dyrhólaey, en nóttin kostar þó 220 þúsund. Photo: Icelandair

Vegagerðin fær um 3,4 milljónir fyrir útleigu á vitanum í Dyrhólaey til Icelandair hótels í Vík í tvo mánuði. Mbl.is fjallaði um málið í dag þar sem fram kom að Vegagerðin væri með í skoðun að leigja út fleiri vita á komandi árum. Út frá þessum tölum er ljóst að fermetraverð er nokkuð hátt á þessum fallega stað og rúmlega sjöfalt hærra en miðsvæðis í Reykjavík.

21 þúsund á fermetra

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins er vitinn 80,2 fermetrar að stærð, en einhver hluti hans er undanþeginn leigu hótelsins vegna ljósabúnaðarins. Fermetraverðið þessa tvo mánuði er því allavega 21 þúsund krónur á hvern fermetra, sem verður að teljast nokkuð nokk, en til samanburðar sagði fasteignafélagið Reginn frá því að leigutekjur vegna Aust­ur­strætis 22, sem sam­an­stend­ur af þrem­ur hús­um sem voru end­ur­byggð í sögu­leg­um stíl eft­ir bruna árið 2007 á horni Lækjargötu og Austurstrætis, væru um 81 milljón fyrir 2.386 skráða fermetra. Það jafngildir rúmlega 2800 krónum á hvern fermetra.

Leigan á hvern fermetra sem Vegagerðin fær fyrir vitann er því rúmlega sjöfalt hærri en í miðbæ Reykjavíkur. Til viðbótar réðst hótelið í hönnunarvinnu innandyra í vitanum til að gera aðstöðu fyrir gesti eins og best er á kosið.

Það er þó ekki ókeypis að upplifa það að gista á þessum stað, en samkvæmt umfjöllun DV á föstudaginn kostar nóttin 220 þúsund krónur og er það dýrasta gisting hér á landi.

Geta framlengt leiguna um einn mánuð

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Vegagerðinni var vitinn leigður út til Icelandair hotels yfir tvö tímabil. Fyrra tímabilið var frá 13. til 30. apríl og var greitt 1.610 þúsund fyrir það. Seinna tímabilið er frá 1. til 30. september fyrir 1.800 þúsund krónur. Þá er hægt að framlengja samninginn um einn mánuð og bætist við greiðsla ef það er gert.

Uppsetning gististaðar í vitanum var hluti af markaðsher­ferð og kynn­ingu á „stop-over“ kynn­ingar­átaki Icelandair og var aðeins leigt í takmarkaðan tíma. Ekki er ljóst hvort hótelið muni sækjast eftir að halda vitanum í útleigu áfram. Samkvæmt Sigurði Áss Grét­ars­syni, fram­kvæmda­stjóra sigl­inga­sviðs Vega­gerðar­inn­a færi frekari útleiga á vitum hér á landi í útboð og væri þá væntanlega horft til langtímaleigu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert