Nýjar sprungur eru að myndast í Ketubjörgum á Skaga, en sem kunnugt er hefur hár klettur klofið sig frá bjarginu sjálfu og allt bendir til að hann molni niður og falli frá fastalandinu fyrr en síðar. Klettur þessi er 60-70 metra hár, en það var í febrúar á þessu ári sem heimafólk á Ketu varð þessa fyrst vart. Grannt hefur verið fylgst með framvindu mála síðan og nokkur viðbúnaður hafður.
„Að undanförnu höfum við séð hvernig er að losna meira um bergið. Kletturinn sem nú skríður fram er við Fálkabakka upp af svonefndri Innri-Bjargavík. Aðeins örfáum metrum þar utan eða norðan við er þróunin hin sama. Nú eru þar komnar sprungur í klettana og sennilega gerist eitthvað í framhaldinu,“ segir Hrefna Gunnsteinsdóttir, bóndi á Ketu. Sá bær er á Skaga, um 40 kílómetrum norðan við Sauðárkrók. Og það er aðeins örfáa metra frá veginum um Skaga sem hrynur úr berginu. Í því sambandi bendir Hrefna á að fyrr á árunum hafi þurft að færa veginn á þessum slóðum til og af því megi ráða að þróunin sé öll til sömu áttar.
Tilkomumikið er að sjá þessar breytingar á náttúrunni nyrðra, þar sem Morgunblaðið var á ferð í síðustu viku. „Það var snemma á árinu að við urðum þess áskynja að eitthvað væri að gerast þarna í bjarginu. Sáum þá að sprunga hafði myndast og hún hefur stækkað jafn og þétt á síðustu mánuðum. Er núna orðin um einn metri á breidd. Molakennt móbergið þarna er mjög laust í sér og atburðarásin helgast af því. Að bjarginu falla fram lækir af Skagaheiðinni sem sameinast í einn niður undir bjargbrún. Í fyrravetur myndaðist þarna klakastífla sem síðar losnaði fram og þá hefur vatnið líklega sigið niður í bergið og það frostsprungið. Mér finnst sennilegt af reynslunni að dæma að stykkið taki út í stórviðri næsta vetur, þegar brimið slær af öllum sínum þunga á klettana þarna.“
Atburðarásin sem nú sést í Ketubjörgum er ekkert einsdæmi, að sögn Hrefnu.
„Hér hef ég átt heima í meira en 60 ár og man eftir mörgu þessu viðlíku. Það er alltaf að hrynja úr björgunum, sem hæst eru um 100 metra há. Aðeins norðan við víkina þar sem sprungurnar eru nú fór stórt bjarg fram fyrir fjórum eða fimm árum,“ segir Hrefna. Hún telur þá athygli sem framvindunni við Ketubjörg nú er sýnd helgast af því að ferðamönnum þarna fjölgi. Björgin hafi jafnan þótt áhugaverður viðkomustaður – ekki síst nú – en þá komi á móti að lögregla og vísindamenn vakti staðinn og brátt verði viðvörunarskilti sett upp.
„Mér finnst umferðin hér vera stöðug. Og nú hefur þetta tekið kipp, því að fáeinir dagar eru síðan hér fór að hlýna og sumar gekk í garð,“ segir Ketubóndinn.