Hafa skilað styrkingu að fullu

Hagar reka fjölda verslana á Íslandi, þar á meðal Bónus …
Hagar reka fjölda verslana á Íslandi, þar á meðal Bónus og Hagkaup. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verslunarrisinn Hagar hefur ekki hækkað álagningu sína heldur skilað styrkingu krónunnar og skattabreytingum til neytenda, að sögn Finns Árnasonar, forstjóra fyrirtækisins. Mikilvægt sé að allir sem komi að verðákvörðunum gæti aðhalds.

Framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, Þórarinn Ævarsson, hvatti í dag verslunina á Íslandi til að fylgja fordæmi IKEA sem ætlar að lækka vöruverð sitt um 2,8%. Forsendurnar fyrir lækkuninni segir hann vera styrkingu krónunnar gagnvart evru, hagstæðari kjarasamningar en útlit var fyrir og aukinn ferðamannastraumur sem hafi styrkt verslun í landinu.

„Við erum náttúrulega að vinna þetta dag frá degi, ekki bara einu sinni á ári. Það hefur komið fram að álagningin hefur verið að lækka svo við höfum verið að skila þessari styrkingu að fullu. Við höfum sagt það að það sé mikilvægt að skila skattabreytingum og þessum styrkingum, bara til að halda trúverðugleika. Okkar opinberu tölur staðfesta að þannig höfum við unnið,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, spurður að því hvort að fyrirtækið muni fylgja fordæmi IKEA.

Mikilvægt sé að gæta aðhalds í verðlagningu og segir Finnur að hann hafi þannig gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hækka verð á smjöri um 11,6% í sumar sem hafi verið rúmlega þreföld verðlagsþróun.

„Það á við um alla sem koma að verðákvörðunum. Það þarf að gæta aðhalds til þess að viðhalda stöðugleika. Okkar tölur staðfesta að við erum ekki að auka álagningu,“ segir Finnur. Hagar reka meðal annars matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup auk ýmissa annarra verslana á borð við Zöru, Debenhams og Útilíf.

Útreikningar Samtaka atvinnulífsins benda til þess að álagning á innfluttar vörur hafi lækkað um 0,8% frá árinu 2011.

Fyrri frétt mbl.is: Segir svigrúm til lækkunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert