Skosku hermennirnir sem taldir voru hafa ekið utan vega hér á landi á ferðalagi sínu gáfu sig fram við lögreglu í gær og hefur lögregla einnig rætt við mennina í dag. Rannsókn lögreglu á málinu er lokið.
Þetta segir Aðalsteinn Júlíusson, lögregluvarðstjóri á Húsavík, í samtali við mbl.is. Hann segir mennina miður sín vegna málsins, sérstaklega vegna athugasemda sem Íslendingar hafa skilið eftir á spjallþræði á vefsíðu þeirra. Vefsíða mannanna liggur nú niðri vegna mikillar umferðar.
Frétt mbl.is: Gáfu sig fram við lögreglu
„Eftir rannsókn á þessu svæði við Holuhraun eru engar vísbendingar um að þeir hafi keyrt utan vega, alls engar,“ segir Aðalsteinn og bætir við að landverðir hafi kannað svæðið í gær. Ákveðið var að hefja rannsókn málsins eftir að athygli var vakin á myndum á vefsíðu mannanna en þar mátti finna myndefni úr ferðinni sem gaf til kynna að mennirnir hefðu brotið af sér og ekið utan vega.
„Mennirnir bera af sér allar sakir og segjast hafa farið í einu og öllu eftir slóðum, allavega á okkar svæði. Þeir eru algjörlega miður sín og vilja gera allt til að leiðrétta þetta. Það er ekki rétt að þeir hafi játað brot sín og greitt sekt, þeir hafi ekki brotið neitt af sér. Enginn er sekur fyrr en hann er fundinn sekur,“ segir Aðalsteinn.
„Eins og sjá má á myndunum er þetta hetjulegur leiðangur í góðgerðarskyni. Þeir sögðu að margar myndirnar væru uppsettar þannig að þetta liti út eins og þeir væru að gera eitthvað sem þeir ættu ekki að vera að gera en þeir eru ekki sjáanlega að keyra utan vegar.
Fjölmargir erlendir og innlendir fjölmiðlar hafa haft samband við lögregluna á Húsavík í morgun vegna málsins. Rannsókn málsins er lokið af hálfu lögreglunnar.
Frétt mbl.is: Segjast ekki hafa brotið íslensk lög
Frétt mbl.is: Kanna utanvegaakstur hermanna