„Nú er að renna upp sá tími að við getum farið í gríðarlega stóra og mikla hreingerningu á skuldahlið ríkissjóðs,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni segir að fjárlagafrumvarpið verði lagt fram með ágætis afgangi. Bjarni bendir á að nú sé sú staða komin upp, sem tengist afnámi gjaldeyrishaftanna, að hægt verði að gera upp öll lán sem tengdust áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og menn standi líka frammi fyrir þeim vanda hvað varðar íslensku krónulánin, að geta valdið þensluáhrifum með því að borga of mikið af þeim upp. „Við erum í raun og veru með of mikla endurgreiðslugetu hvað snertir krónuhlutann af skuldunum. Það þarf hreinlega að stíga varlega til jarðar í því hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem verða til skiptanna,“ segir hann.
Ekkert ríki í Evrópu muni sjá jafnmiklar breytingar á ríkisfjármálunum á jafnskömmum tíma og Íslendingar eru að fara að upplifa. Ekki er gert ráð fyrir stöðugleikaskattinum í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 en Bjarni segir að nú sé allteins gert ráð fyrir að í stað hans komi stöðugleikaframlag á þessu ári. Vöxtur verður í útgjöldum til velferðarmála og ráðist í skattalækkanir.
Í viðtalinu fjallar Bjarni líka um Rússadeiluna og segir að engin sérstök úttekt hafi legið fyrir um viðskiptahagsmunina en ekki sé til umræðu í ríkisstjórninni að afturkalla viðskiptaþvinganirnar.