Matvöruverslunin Krónan hefur frá því í byrjun sumars boðið upp á vörur, sem eru við það að renna út eða þegar runnar út, í versluninni í Lindum í Kópavogi. Eru vörurnar á niðursettu verði og virðist hugmyndin mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum en meira en tíu vörubretti af slíkum vörum hafa rokið út í búðinni undanfarið. Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar og Kjarvals, segir í samtali við mbl.is að þetta framtak sé hluti af stefnu fyrirtækisins varðandi matarsóun.
Krónan hefur um nokkurt skeið boðið upp á afsláttarkjör af grænmeti og ávöxtum sem er orðið útlitsgallað. Kristinn segir að frá því í sumar hafi fyrirtækið svo ákveðið að prófa sig áfram, fyrst í einni búð og sjá hvert það leiddi þá. Segir hann að horft hafi verið á vöruflokka sem eru með langan líftíma og nefnir sem dæmi pakkasúpur, rúsínur og taílenskar sósur. Almennt segir hann að miðað sé við að um 1-2 mánuðir séu eftir af límtíma slíkra vöruflokka þegar þessar vörur eru settar á tilboðsverð.
Kristinn tekur þó fram að ef vörurnar eru ekki söluhæfar eftir að þær renna út þá séu þær ekki seldar. Almennt gildi þó um þessar vörur að þær séu í góðu ásigkomulagi í 2-4 mánuði eftir formlegan tímaramma og sumar jafnvel mun lengur.
Leyfilegt er að selja útrunnin matvæli, en í 10. grein reglugerðar um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda segir að það sé á ábyrgð seljanda að matvæli, sem seld eru þegar þau eru komin fram yfir dagsetningu lágmarksgeymsluþols, séu neysluhæf. Kristinn segir að það geti verið mjög mismunandi með hverja vöru fyrir sig hvað hægt sé að selja hana langt fram yfir lágmarksgeymsluþolið og að hjá Krónunni sé enn verið að þróa viðmið í þessum efnum. Hann segir að með langtímavöru virðist hins vegar mjög raunhæft að selja vöruna í 2 mánuði eftir að varan rennur út.
Kristinn segir að það hafi verið neytendur sem hafi upphaflega ýtt þessum bolta af stað og fyrst hafi Krónan prófað þetta með grænmeti og ávexti en nú sé verið að skoða viðbrögð neytenda við fleiri vöruliðum. „Þeir hafa verið mjög ánægðir með þetta,“ segir hann og bætir við að í skoðun sé að þetta fyrirkomulagi verði í fleiri verslunum.
Nú þegar hafa meira en 10 bretti selst af vörum sem voru útrunnar eða við að renna út frá því að Krónan hóf að selja þessar vörur í byrjun sumars. Kristinn segir þó að upphaflega hafi þetta verið mjög lítið í sniðum, en nú séu heilu stæðunum stillt upp.
Þegar blaðamaður mbl.is átti leið í verslun Krónunnar var t.a.m. talsvert mikil framstilling af sósum frá Asíu, en þær voru allar á 50 krónur, meðan algengt verð á hverja einingu er 200-600 krónur. Voru stæðurnar merktar sérstaklega þar sem fram kom að tilboðið væri vegna dagsetningar á vörunum, en flestar sósurnar voru komnar um 2 mánuði fram yfir síðasta söludag.
Kristinn segir marga þætti orsaka að vörur renni út. Í fyrsta lagi geti fyrirtækið endað með vörur sem hafi selst illa, en svo geti líka verið um að ræða vörur sem týndust í vöruhúsi, voru vitlaust afgreiddar eða rangt merktar með tímastimpli. Hingað til hafi það jafnan endað með því að fyrirtækið hafi þurft að farga þessum vörum, en með þessari aðferð verði vonandi bæði hægt að selja þær og að minnka matarsóun í leiðinni.