Skuldar Þjóðkirkjunni 380 milljónir

mbl.is/Hjörtur

Ríkissjóður þarf að greiða Þjóðkirkjunni um 380 milljónir króna á yfirstandandi ári til þess að kirkjujarðasamkomulagið frá árinu 1997 verði efnt án viðaukasamkomulags samkvæmt útreikningum innanríkisráðuneytisins. Þetta kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins en Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Fram kemur í minnisblaðinu að frá árinu 2010 hafi framlög til Þjóðkirkjunnar á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sætt skerðingum líkt og fjárveitingar ríkisins til annarra stofnana samfélagsins. Þar segir að greiðslur á árunum 2010-2015 séu um 1,8 milljörðum lægri en meginefni samkomulagsins geri ráð fyrir vegna árlegra viðaukasamninga sem samþykktir hafi verið af hvorum aðila um sig í tengslum við fjárlagagerð hverju sinni á verðlagi þess árs.

„Þannig hefur kirkjuþingið frá árinu 2010 til og með 2014 samþykkt að taka þátt í þeim fjárhagslegu ráðstöfnum sem gripið hefur verið til vegna fjárhagsþrenginga ríkisins,“ segir ennfremur. Kirkjuþing hafi hins vegar hafnað viðaukasamkomulagi vegna yfirstandandi árs og fyrir lægi bréf frá kirkjuráði og biskupi Íslands þar sem krafist sé efnda á samkomulaginu. Ljóst sé hins vegar að þeir fjármunir sem farið sé fram á séu ekki fyrir hendi í ráðuneytinu.

Fái umboð til viðræðna við Þjóðkirkjuna

„Áður en til þess kynni að koma að máli þessu yrði vísað til gerðardóms er að mati innanríkisráðherra afar mikilvægt að aðilar hefji hið fyrsta viðræður um framkvæmd samkomulagsins og leiti leiða til að jafna þann ágreining sem uppi er um samkomulagið,“ segir í minnisblaðinu og vísað í ákvæði samnings um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 1998 um lausn ágreinings um framkvæmd hans.

Er því lagt til af hálfu innanríkisráðuneytisins að ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis fái umboð fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til þess að ganga til viðræðna við Þjóðkirkjuna um framkvæmd og efndir kirkjujarðasamkomulagsins hið fyrsta. 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert