Þrátt fyrir að beinn fjárhagslegur ávinningur ríkisins af alþjóðlegri skipaskrá með sérstökum ívilnunum fyrir kaupskipa- og þjónustuskipaútgerð sé takmarkaður, þar sem hún hefði ekki í för með sér miklar beinar tekjur fyrir ríkissjóð, gæti slík skrá hins vegar skapað afleidd störf og óbeinar tekjur vegna ýmissar hliðarstarfsemi.
Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið um möguleika Íslands á að halda úti alþjóðlegri skipaskrá sem samkeppnishæf væri við önnur ríki. Eins og mbl.is hefur fjallað um hafa íslensk kaupskip verið skráð erlendis árum saman af hagkvæmisástæðum og sigla því ekki undir íslenskum fána. Skipafélögin hafa þó lýst miklum áhuga á að skrá skip sín hér á landi verði komið á samkeppnishæfum aðstæðum hér á landi.
Mikilvægt að fá skipin skráð á Íslandi
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er unnið að frumvarpi í ráðuneytinu þar sem byggt er meðal annars á efni skýrslunnar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kallaði eftir því á síðasta kjörtímabili þegar hann var í stjórnarandstöðu að þessi mál yrðu tekin til skoðunar. Óásættanlegt væri að hér á landi væri ekki að finna samkeppnishæfa og öfluga alþjóðleg skipaskrá. Öllum árum yrði að róa að því að fá íslensk kaupskip skráð hér á landi.
Fram kemur í skýrslunni að beinar tekjur ríkissjóðs kæmu til vegna tonnaskatts og skráningargjalda en óbeinar vegna hliðarstarfsemi sem iðulega fylgdu rekstri alþjóðlegra skipaskráa og þjónustu við þær útgerðir sem kysu að skrá skip í sín hér á landi. Meðal annars í formi umsýslu- og viðskiptakostnaðar vegna reksturs skipa og áhafna. Tekið er fram að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á íslenskir kjarasamningar gildi um kjör áhafna.
Takmarkað svigrúm Íslands vegna EES
Meðal annars hafa íslensk kaupskip verið skráð í Færeyjum en þar þykja aðstæður mjög samkeppnishæfar. Færeyingar hafa getað boðið kaupskipaútgerðum upp á afar hagstæð kjör ekki síst vegna þess að þeir eru hvorki aðilar að Evrópusambandinu né Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og hafa því ekki verið bundnir af regluverki sambandsins og þeim takmörkunum sem þar er að finna meðal annars varðandi skattaívilnanir.
Fram kemur í skýrslunni að við mat á því hvort íslensk alþjóðleg skipaskrá sé raunhæfur möguleiki verði að líta til þess að íslensk fyrirtæki hafi kosið að skrá kaupskip sín í ríkjum utan EES og að erfitt gæti reynst að að keppa við þau varðandi ívilnanir vegna takmarkana sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi sett með vísan í ólögmætan ríkisstuðning. Eftir sem áður megi horfa til Noregs sem hafi fengið samþykki frá ESA fyrir ákveðnum ívilnunum.
Fjárhagslegar forsendur hafa úrslitaáhrif
Ennfremur segir að hafa verið í huga að á endanum hafi fjárhagslegar forsendur úrslitaáhrif þegar skipaútgerðir taki ákvörðun um það hvar þau skrái kaupskip sín og að samkeppni á milli ríkja á þessu sviði sé mikil og sé háð sífelldum breytingum. Fyrir vikið sé talsverður hreyfanleiki í kerfinu og skip færð á milli skipaskráa eftir því hver bjóði bestu kjörin. Bent er á að kaupskipum hafi fækkað á liðnum árum á norsku skránni en þjónustuskipum hins vegar fjölgað.
Lagt er til í skýrslunni að gildissvið núgildandi laga um alþjóðlega skipaskrá verði útvíkkað þannig að þjónustuskip, olíuborpallar og aðrar vinnslueiningar á hafi úti sem og svifnökkvar falli undir þau líkt og raunin sé í Noregi. Ennfremur þurfi að tryggja samkeppnishæfar ívilnanir hér á landi eins og mögulegt sé innan þess ramma sem ESA hafi sett. Þá verði að sjá til þess að þjónusta, stjórnsýsla og umsýsla alþjóðlegrar skipaskrá verði sambærileg við bestu starfshætti erlendis.
Fréttir mbl.is: