Borgin hafnar ásökunum um bruðl

Ráðhús Reykjavíkurborgar.
Ráðhús Reykjavíkurborgar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tvær skóflur voru keyptar í tengslum við fyrstu skóflustungur að viðbyggingu við Vesturbæjarskóla sem teknar voru af Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, fyrr í vikunni ásamt nemendum við skólann samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg en ekki sex eins og haldið var fram á vef Múrbúðarinnar. Hinar fjórar sem voru notaðar voru átti borgin fyrir.

Múrbúðin vakti athygli á því á vef sínum að sex skóflur hefðu verið notaðar við athöfnina og taldi þær keyptar í Húsasmiðjunni. Þar kostuðu þær tæpar tíu þúsund krónur. Hægt hefði verið að fá þær mun ódýrar hjá Múrbúðinni. Skóflurnar voru hins vegar ekki keyptar í Húsasmiðjunni heldur í næstu byggingavöruverslun sem hafi verið BYKO úti á Granda. Við það hafi sparast akstur auk þess sem afsláttarsamningur væri í gildi við þá verslun.

Bent er á að innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar haldi annars utan um slíka samningagerð. Þar á bæ er unnið mjög markvisst að góðu utanumhaldi innkaupa með rammasamningum og gagnsæjum vinnureglum um innkaup, þar á meðal útboð. Fyrirtækjum sé frjálst að taka þátt í útboðum borgarinnar með þau kjör sem þau geta boðið upp á.

Frétt mbl.is: Borgin sökuð um bruðl við skóflukaup

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert