„Ég sá tóma flösku í fjörunni og hélt fyrst að einhver hefði haldið þarna partí. En svo sá ég bréfið og vissi þá að þetta væri eitthvað spennandi.“
Þetta segir Júlía Sigríður Pálsdóttir, 11 ára Reykjavíkurdama, í Morgunblaðinu í dag. Hún var með fjölskyldu sinni og vinum á gangi í Héðinsfirði á dögunum þegar þau gengu þar fram á hvítvínsflösku.
Hún reyndist innihalda bréf frá nemendum 1. til 4. bekkjar Öxarfjarðarskóla, sem settu flöskuna í sjó þann 17. febrúar á þessu ári. Faðir Júlíu gerði skólafólki nyrðra viðvart í vikunni og sagði því frá fundinum. Í bígerð er að koma flöskunni og bréfinu til viðtakenda við tækifæri.