Íslendingar ganga nú í gegnum eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið á lýðveldistímanum. Uppgangur í ferðaþjónustu knýr hagvöxtinn og mun sá vöxtur kalla á mikinn innflutning vinnuafls á næstu árum.
Þetta segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir ferðaþjónustuna slíka búbót fyrir íslenskt efnahagslíf að leita þurfi samanburðar í útfærslu landhelginnar í tveimur þrepum úr 12 í 200 sjómílur á 8. áratugnum.
Andstætt þróuninni á 8. áratugnum muni verðbólguþrýstingur ekki fylgja í kjölfar aukinna umsvifa. Ástæðan sé mikill innflutningur á vinnuafli á næstu árum, sem muni bæði halda aftur af launaskriði og verða forsenda þess að ferðaþjónustan geti annað stóraukinni eftirspurn.