Ferðamenn sem fóru í hvalaskoðun í nágrenni Reykjavíkur nýlega höfðu ekki séð tangur né tetur af risum hafsins þegar Hvalur 8 sigldi framhjá með dauðan hval í eftirdragi.
Daily Mail greinir frá upplifun ferðamannanna á vef sínum í dag þar sem rætt er við bandaríska ferðamanninn Timothy Baker. „Þú getur ekki látið dauða hvali vera það eina sem fólk sér eftir að hafa eytt pening í hvalaskoðun,“ er haft eftir Baker.
Þrátt fyrir að hafa hryllt við hvalhræinu tók Baker myndir af því og sendi á ýmis dýraverndunarsamtök sem fara fram á að sjávarútvegsráðuneytið afturkalli heimildir fyrir hvalveiðum. Samkvæmt Daily Mail hafa 28 hrefnur og 91 langreyður verið veidd það sem af er sumri en rétt er að taka fram að á vef fiskistofu segir er tala veiddra langreyða sögð 88.
Daily Mail segir yfir 118 þúsund manns hafa farið í hvalaskoðun frá Reykjavík árið 2014 en að í nýlegri könnun hafi komið fram að 90% breskra og þýskra ferðamanna séu ólíklegir til að fara í slíka ferð ef líkur væru á að sjá hvali drepna eða dregna að landi.