Selja veðurkerfi í Afríku

Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Belgings
Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Belgings Styrmir Kári

Íslenska hugvitsfyrirtækið Reiknistofa í veðurfræði er þessa dagana að leggja lokahönd að senda út fjögur veðurspákerfi sem munu nýtast alþjóðastofnun og veðurstofum þriggja Afríkuríkja við veðurspár. Verkefnið kom óvænt upp fyrir síðustu jól og leit þá út fyrir að um lítið verkefni væri að ræða, en síðan þá hefur undið talsvert upp á það og segir Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins að það muni skila 80-90 milljónum.

Reiknistofa í veðurfræði er hvað þekktast fyrir að halda úti vefnum Belgingur.is, en þar geta notendur séð veðurspá, ekki ósvipaða því sem er á Vedur.is. Þó er bæði munur á spákerfunum sem og að Belgingur notar þéttara reikninet en Veðurstofan. Til viðbótar við Belging hefur fyrirtækið unnið að SARweather kerfinu, en þar gefst notendum kostur á að reikna mjög nákvæmar staðbundnar spár sem ná yfir skemmri og lengri tímabil. Þeir pakkar sem eru nú seldir út eru einmitt áframhald af því verkefni, en auk þess að gefast kostur á að sækja upplýsingar á vefþjóna fyrirtækisins, geta stofnanir og aðrir kaupendur nú fengið búnaðinn til sín og haldið áfram að þróa spálíkönin fyrir það svæði sem þau vinna á.

Fjögur verkefni í Afríku

Ólafur segir að í þessum áfanga sé um að ræða fjögur aðskilin veðurspákerfi sem sé verið að selja. Fyrst sé það pakki sem sé seldur til Grænhöfðaeyja og gert er ráð fyrir að fari út strax í næstu viku. Þá fari annar til Gínea-Bissá, sá þriðji til Máritíus og fjórði og stærsti pakkinn til Eþíópíu.

Í Eþíópíu er það alþjóðastofnunin UNECA (Efnahagsnefnd fyrir Afríku) sem kaupir kerfið, en í hinum ríkjunum eru það ríkisveðurstofur viðkomandi landa. UNECA áformar að nýta búnaðinn til að setja upp 7-10 daga veðurspákerfi fyrir alla Afríku, en hinar stofnanirnar munu hafa spárnar mun svæðisbundnari.

Vélbúnaður og hugbúnaður uppsettur til notkunar

Pakkarnir samanstanda af bæði vélbúnaði og hugbúnaði sem er uppsettur beint til notkunar þannig að veðurstofurnar fá sjálfar ákveðið verkfæri í hendurnar til að gera eigin veðurspár. Ólafur segir að þetta sé þó alls ekkert „blackbox“ og á þar við að kerfið sé ekki læst og óbreytanlegt, heldur gefst kaupendum tækifæri á að byggja ofan á spálíkönin og prófa sig áfram með hvaða líkön virka best á hverjum stað. „Þetta er ákveðin verkfærakista,“ segir hann til að lýsa pakkanum betur.

„Maður þekkir mann“

En hvernig kom það til að veðurfyrirtæki frá Íslandi færi að selja spákerfi til fjölmargra Afríkuríkja? Ólafur segir að eins og með margt annað þá komi þetta niður á óvæntum tengingum, „maður þekkir mann,“ segir hann.

Rifjar hann upp að fyrir nokkrum árum hafi hann ásamt Loga Ragnarssyni, einum af höfundum spákerfisins, farið til Naíróbí í Kenía til að ræða samvinnu við undirstofnun Þjálfunar- og rannsóknarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNOSAT. Þar unnu þeir tvö þróunar- og hönnunar verkefni fyrir stofnunina. Einn af þeim sem sá um þessi verkefni fyrir UNOSAT tók nokkru síðar við yfirmannsstöðu hjá UNECA og Ólafur segir að hann hafi haft samband við sig korteri fyrir jól og spurt hvort fyrirtækið gæti útvegað þeim tilraunakerfi fyrir Eþíópíu og Kenía. Átti það verkefni aðeins að vera til hálfs árs.

Ég skrúfaði saman verkefnalýsingu og upp úr því æxlaðist að þeir vildu allt kerfið,“ segir Ólafur og að þannig hafi verkefni sem var aðeins upp á nokkra þúsundkalla orðið að tæplega hundrað milljóna verkefni.

Gæti náð til fleiri landa

Samhliða því að útvega vélbúnað og hugbúnað mun fyrirtækið einnig koma að námskeiðum og kennslu fyrir kerfin og segir Ólafur að framundan séu allavega fjórar ferðir til ríkja í Afríku fyrir sig. Þá útilokar hann ekki að verkefnið muni enn frekar stækka, en verkefnið byggir á því að UNECA er að styðja við þróun í þessum geira fyrir þróunarríki í álfunni sem eru strand- og eyjaríki. Þannig gæti það einnig náð til Saó Tóme og Prinsípe, Seychelleseyja og Kómoreyja.

Erfiðara að spá fyrir um veður í Afríku en á Íslandi

Aðspurður hvort það sé ekki tvennt ólíklegt að útbúa spákerfi fyrir heila heimsálfu sem sé þekkt fyrir nokkuð hlýtt loftslag og svo veðravítið Ísland þar sem lægðir koma helst í hópflugi yfir landið segir Ólafur bæði líkindi og vandamál í því sambandi. Segir hann þetta að mörgu leyti sama verkefnið. „Þetta er sami lofthjúpur og slíkt,“ segir hann. Munurinn felist þó helst í því að í Afríku þurfi meira að glíma við mikla upphitun og uppgufun, meðan hér á landi fáum við reglulegar lægðir sunnan úr höfum. „Að mörgu leyti er erfiðara að spá fyrir um þróun slíkra kerfa en lægðanna hér við land,“ segir hann, en auk þess er heimsálfan Afríka gríðarlega stórt og umfangsmikið land með fjölbreytt landslag og veðurkerfi.

Hér má sjá vindaspá SARWeather fyrir Laugaveginn hér á landi. …
Hér má sjá vindaspá SARWeather fyrir Laugaveginn hér á landi. Kerfi fyrirtækisins verður nú nýtt í fjórum löndum í Afríku. SARWeather
Aðstæður í Gínea-Bissá geta verið talsvert öðruvísi en hér á …
Aðstæður í Gínea-Bissá geta verið talsvert öðruvísi en hér á landi. Mynd/wikipedia.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert