„Okkur finnst svo leiðinlegt að öll athyglin fer á strákana í boltanum og engin á okkur svo okkur langaði að búa til myndband og sýna hvernig okkur líður,“ segir Andrea Marý Sigurjónsdóttir, en hún og liðsfélagar hennar í 5. flokki kvenna í FH birtu í dag myndband þar sem þær vekja athygli á kynjamisrétti í knattspyrnu.
Stelpurnar fóru saman á kvennaleik hjá FH á miðvikudag og tóku eftir því hversu fáir mættu á leikinn. „Það mætti varla einn fjórði þeirra sem mæta á karlaleiki,“ segir Andrea og bætir við að þær hafi í kjölfarið ákveðið að nú væri kominn tími til að gera eitthvað í málunum.
Andrea ásamt tveimur öðrum úr liðinu byrjuðu að gera prufumyndband í gær, og fengu þær svo restina af liðinu til að taka þátt með sér. Í myndbandinu setja þær spurningamerki við ýmislegt sem betur má fara til að jafnrétti kynjanna verði náð í íþróttinni.
„Af hverju fá strákar mikið stærri bikara en stelpur? Af hverju mæta miklu fleiri á strákaleiki en stelpuleiki? Af hverju eru strákaleikir sýndir í sjónvarpinu en ekki stelpuleikir? Af hverju eru strákar oftast krýndir íþróttamenn ársins en ekki stelpur? Af hverju fá strákar betri laun en stelpur í boltanum? Af hverju fá strákar meiri athygli en við?“ spyrja stelpurnar meðal annars í myndbandinu, og segjast ekki gefa strákunum neitt eftir. „Við erum ekkert verri en strákar í boltanum.“
Stelpurnar benda á knattspyrnuþáttinn Pepsi-mörkin, þar sem aðeins er fjallað um karlkyns leikmenn, en engar konur. „Það er eins og það sé verið að segja við okkur að við séum ekki jafn góðar og strákarnir,“ segir Andrea og bætir við að þær fái að æfa með strákunum ef þær eru góðar, en strákarnir séu ekki látnir æfa með þeim.
Arna Sigurðardóttir, sem einnig er í liðinu, segist vera orðin þreytt á þessu kynjamisrétti. „Það er oft búið að ákveða að strákarnir séu betri en við, eins og þetta sé bara íþrótt fyrir þá. Það er líka búið að ákveða að stelpur geti ekki verið jafn góðar og strákar þó þær geti það alveg.“
Ljóst er að stelpurnar eru mjög metnaðarfullar í boltanum, en þær eru á leið að keppa þegar blaðamaður nær tali af þeim. Þær segjast hafa æft fimm sinnum í viku í sumar, og ætli sér að komast í atvinnumennsku þegar þær verði eldri. Liðið þeirra fagnaði sigri í 5. flokki kvenna á Símamótinu á dögunum og eru þær hvergi nærri hættar.
„Við ætlum að reyna að vekja athygli á þessu núna og segja frá því hvernig þetta er. Vonandi vekur það athygli,“ segir Andrea að lokum.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið, en auk Andreu og Örnu eru þær Elísa Lana, Eydís Arna, Svanhildur Ylfa, Lára, Þórdís Ösp, Urður Vala og Tinna Sól í liðinu.
Dætur mínar tvær og liðið sem þær spila með í 5fl kvk FH ákváðu að búa til myndband.Hugmyndin var algerlega þeirra og þær fengu litla bróður sinn með í liðÞær spila fótbolta og þær elska það. Vonandi fá þær einhvern daginn svör við þessum spurningum:) #áframSTELPUR
Posted by Ebba Særún Brynjarsdóttir on Friday, August 21, 2015