Norðlingaölduveita í Þjórsá er hagkvæmasta virkjunin sem Orkustofnun leggur fyrir verkefnastjórn þriðja áfanga rammaáætlunar. Hún er eina virkjunin í lægsta kostnaðarflokki.
Norðlingaölduveita var flokkuð í verndarflokk í núgildandi rammaáætlun. Núverandi verkefnastjórn hyggst ekki endurskoða það mat, telur að ekki hafi orðið þær breytingar á virkjanatilhögun sem kalli á nýtt mat. Landsvirkjun hafði tilkynnt nýjar útfærslur af Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu til mats.
Urriðafossvirkjun, neðst í Þjórsá, er næst ódýrasti virkjunarkosturinn, samkvæmt mati Orkustofnunar. Hinar virkjanirnar í neðrihluta Þjórsá, Hvammsvirkjun, sem þegar er komin í nýtingarflokk og Holtavirkjun, eru töluvert dýrari á hvert megawatt, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.