Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar og fyrrverandi stjórnarformaður flokksins, segist vera sátt með þá ákvörðun Guðmundar Steingrímssonar, formanns flokksins, að bjóða sig ekki fram á ný í formannsembættið á aðalfundi 5. september. Segir hún nauðsynlegt að hafa tekist á við þá gagnrýni sem var í flokknum. Heiða Kristín segist ekki enn hafa gert upp hug sinn varðandi mögulegt formannsframboð, en að hún muni hugsa um það næstu daga.
Björt framtíð hefur að undanförnu tapað miklu fylgi í skoðanakönnunum og gagnrýndi Heiða Kristín flokksforystuna harðlega og að gera þyrfti eitthvað í málinu. Í framhaldinu var haldinn flokksfundur og sagði Guðmundur í dag að hann ætlaði ekki að sækjast eftir áframhaldandi setu í formannsstól. „Það er ágætt að hlustað hafi verið á þá gagnrýni sem hefur komið fram bæði innan flokks og utan og að við höfum getað farið í gegnum ákveðið ferli sem er oft óþægilegt en skilaði sér í hreinskiptari samræðum,“ segir Heiða Kristín í samtali við mbl.is.
Hún segist sátt við ákvörðun Guðmundar og að hún hafi verið í anda þess sem fólk ræddi á flokksfundinum fyrr í mánuðinum. Segir hún að þar hafi greinilega komið vilji fólks að gera breytingar. „Það er hægt að segja að það hafi verið stemmning fyrir því að breyta og hleypa fleirum að,“ segir Heiða Kristín og bætir við „það þýðir ekkert að láta eins og hlutirnir séu ekki eins og þeir eru.“ Hún segir samt jákvætt a' unnið hafi verið í stöðunni og að það sé í farvegi.
Heiða Kristín staðfestir að eftir ákvörðun Guðmundar muni hún taka sæti Bjartar Ólafsdóttur, þingmanns flokksins, þegar hún fer í fæðingarorlof í haust. Áður hafði hún gefið út að hún ætlaði ekki að taka sætið meðan Guðmundur væri formaður. Aðspurð hvort ákvörðun hans núna hafi breytt stöðunni fyrir hana segir hún það hafa áhrif. „Það og allt ferlið eftir að þessi atburðarás fór í gang. Mér finnst að það hafi átt sér stað nauðsynleg hreinsun, bæði í orði og á borði.“
Aðspurð hvort ekki verði erfitt að starfa með Guðmundi í þingflokknum eftir undangengna atburði segir Heiða Kristín ekki telja svo vera. „Þetta snýst ekkert um persónulega óvild mína gagnvart Guðmundi. Hann hefur tekið að sér ákveðin embætti og gegna ákveðnu forystuhlutverki í því og mér fannst það vera frekar fullreynt. Við erum fullfær um að geta átt ágætis samskipti og laus við dramatík,“ segir hún. „Ég get tekið að mér að vera leiðinleg, það er ekkert mál. Það þarf alltaf einhver að vera í því.“
Heiða Kristín segir að búið sé að takast á við hluta þeirrar gagnrýni sem hafi komið fram. Hún segir þó enn mikið verk framundan og að bretta þurfi upp ermar þannig að kjósendur fái áhuga á flokknum á ný. Meðal þeirra mála sem Heiða Kristín segist leggja áherslu á er borgarmiðuð framtíðarsýn og að gera borgina samkeppnishæfa við aðrar erlendar borgir.
Bendir hún á að stór ástæða sem hafi rekið hana og þá sem stofnuðu Besta flokkinn á sínum tíma út í pólitík væri að búa til flokk sem væri laus við hagsmunatengsl. Það sé mikilvægt að halda þeirri stefnu áfram þannig að til sé pólitísk afl sem sé laust við áralanga sögu alls konar tengsla sem hafa áhrif á ákvarðanatöku.
Þá segir hún nauðsynlegt að halda áfram að opna pólitík upp fyrir fólki „Það er ekki beint mín upplifun af því að hafa starfað í stjórnmálum að þau geri líf manns hræðilegt. Það er mjög margt gott við að kynnast því að starfa í pólitík“
Aðspurð um mögulegt framboð sitt til formanns flokksins segir hún að hún hafi enn ekki tekið ákvörðun um það. Segist hún ætla að velta því fyrir sér á næstu dögum, en tiltekur sérstaklega að hún telji að konur þurfi að stíga fram í flokknum og taka meira pláss og ábyrgð.