Um leið og Stuðmenn með Egil Ólafsson í fararbroddi höfðu lokið sér af á stóra sviðinu á Arnarhóli í kvöld, og þar með bundið endahnút á hátíðina hófst flugeldasýningin við mikla hrifningu viðstaddra. Ljósmyndari mbl.is var á svæðinu og náði þessum myndum af sýningunni.
Sýningunni að þessu sinni var stýrt af danshöfundinum Siggu Soffíu í samvinnu við hjálparsveit skáta í Reykjavík. Í október munu svo Íslenski dansflokkurinn og Sigga Soffía í sameiningu endurskapa flugeldasýninguna á stóra sviði Borgarleikhússins undir heitinu Og heimurinn kristallast.
Yfir 1.000 bombur voru notaðar auk fjölda skotkaka. Skotið var upp frá fimm stöðum í bænum, meðal annars úr nágrenni gamla hafnargarðarins sem kom í ljós á dögunum í Hörpugrunni, ofan af Tollhúsinu og víðar. Fjöldi fólks kom að framkvæmd sýningarinnar.
Dagskrá menningarnætur var fjölbreytt eins og mbl.is hefur greint frá í dag. Dagurinn hófst með Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þar sem mikið var um fjör. Síðan tók við fjölbreytt dagskrá um alla borg með tónleikum, vöfflubakstri mörkuðum og fleiru.