Kynna frumvarp um málefni útlendinga

Óttarr Proppé, formaður þingmannanefndar, kynnir drög að nýju frumvarpi til …
Óttarr Proppé, formaður þingmannanefndar, kynnir drög að nýju frumvarpi til laga um málefni útlendinga á morgun. Photo: Eggert

Þingmannanefnd um málefni útlendinga og innanríkisráðuneytið hefur boðað til  samráðsfundar á morgun. Tilefni fundarins er að kynna drög að nýju frumvarpi til laga um málefni útlendinga. 

„Frumvarpið er afurð af löngu ferli sem hófst í raun á síðasta kjörtímabili,“ segir Óttarr Proppé formaður þingmannanefndar. Hann segir nefndina hafa haft það að leiðarljósi að samræma löggjöfina við verklagið og raunveruleikann eins og hann er. Þá sé einnig unnið að því að samræma löggjöfina að skyldum Ísland þegar kemur að mannréttindum og alþjóðasáttmálum annars vegar og hins vegar að tryggja að löggjöfin þjóni samfélaginu og atvinnulífinu upp á samkeppnishæfni.

Uppbót á meðferð mála fyrir hælisleitendur

Í frumvarpinu er meðal annars búið að endurskoða reglur um atvinnuleyfi fyrir sérfræðinga og námsmenn. Þá segir Ótarr einnig felast í því uppbót og breyting þegar kemur að meðferð mála fyrir hælisleitendur. 

Þingamannanefndin hefur unnið samstíga að frumvarpinu og lagði strax í upphafi áherslu á það að vera í miklu og víðtæku samráði við þá sem að tengjast málaflokknum að sögn formannsins.

„Þetta er málaflokkur sem að skiptir miklu máli, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar í heiminum. Hann er ekki einungis mikilvægur vegna hælisleitanda heldur einnig vegna þess að heimurinn er alltaf að verða minni og meira um það að fólk fari milli landa. Því skiptir máli að löggjöfin sé vönduð og lagabókstafurinn þannig að það sé skilvirkt og gott að vinna eftir honum.“

Fundurinn á morgun er í raun hluti af þessu samráðsferli. Þingmannanefndin vonast til þess að fá athugasemdir og tekur á móti þeim til 7. september áður en frumvarpið verður sent til ráðherra og þaðan inn á þingið. Þá vonar Óttarr að fundurinn verði til þess að dýpka umræðuna. „Því fleiri sem að setja sig inn í umræðuna, því betri verður hún.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert