Veltan jókst um 80% á fjórum árum

Bertrand Jouanne, forstjóri Ferðakompanísins. Á fimmtán árum hefur fyrirtækið stækkað …
Bertrand Jouanne, forstjóri Ferðakompanísins. Á fimmtán árum hefur fyrirtækið stækkað mikið og veltir nú um 1,5 milljörðum. Styrmir Kári

Í ár varð ferðaþjónustufyrirtækið Ferðakompaníið 15 ára, en við stjórnvölinn öll þessi ár hefur verið Bertrand Jouanne sem hefur búið hér á landi undanfarin 25 ár. Fyrirtækið hefur alla tíð sérhæft sig í gönguferðum, auk þess sem sérhannaðar ferðir fyrir einstaklinga hefur fjölgað undanfarin ár. Viðskiptavinir eru mest megnið frá Frakklandi og er ætlað að velta fyrirtækisins verði um 1,5 milljarður á þessu ári. Mbl.is ræddi við Bertrand um sögu fyrirtækisins, ferðaþjónustu á Íslandi og framtíðahorfur.

Bertrand byrjaði í ferðaþjónustunni árið 1988 hjá fyrirtæki í Frakklandi þar sem hann vann í tvö ár. Árið 1991 flutti hann svo til Íslands og hóf störf sem leiðsögumaður hér og kynntist í leiðinni íslenskri náttúru og menningu vel. Á sama tíma var fyrirtækið sem hann hafði unnið hjá í Frakklandi, Voyageurs du Monde, með ferðir hingað til lands og hafði meðal annars fengið Bertrand til að vinna fyrir sig.

Stofnuðu dótturfélag á Íslandi

Það var svo árið 2000 að fyrirtækið bauð honum að stofna með sér sérstaka ferðaskrifstofu hér á landi sem væri dótturfélag franska fyrirtækisins. Bertrand segir að á þessum tíma hafi franska ferðaskrifstofan verið með talsveðr umsvif hér á landi og hafi viljað finna eitthvað eitt fyrirtæki til að sinna sínum málum. Hann hafi þurft að hugsa málið í smá tíma en svo endað með að segja já. Ferðakompaníið er í dag í 61% eigu franska félagsins, en Bertrand er eigandi 39% hlutar.

Í dag er um helmingur af starfsemi Ferðakompanísins gönguferðir, en helmingur sérhannaðar ferðir fyrir einstaklinga. Bertrand segir að það hafi alla tíð verið talsvert mikið að gera hjá fyrirtækinu og það hafi notið góðs af samstarfinu við erlendu ferðaskrifstofuna. Þannig sé um helmingur af veltu Ferðakompanísins í dag gegnum bókanir frá móðurfélaginu. Álagið áður segir hann þó ekki sambærilegt við það sem það er í dag. „Það er mikið að gerast í dag, aðallega síðustu fjögur ár.“

Fá 8.000 viðskiptavini á ári í langar ferðir

Eins og fyrr segir er móðurfélagið stór viðskiptavinur, en Bertrand segir að þá séu aðrar erlendar ferðaskrifstofur einnig stórir viðskiptavinir. Bein sala til viðskiptavina sé einnig að aukast, meðal annars sala í gegnum netið og býst hann við að sá hluti muni stækka enn frekar á komandi árum.

Fyrirtækið þjónustar um 8.000 ferðamenn á hverju ári, en það sem aðgreinir það nokkuð frá mörgum öðrum ferðaskrifstofum hér á landi er að ekki er boðið upp á stakar dagsferðir, heldur er alltaf um fjöldagaferðir að ræða. Hver ferð skilar því meiri veltu en í sambærilegum dagsferðum.

Frakkar duglegir að fara í lengri ferðir og á fjöll

Frakkar eru duglegir að ganga um hálendi Íslands og þegar undirritaður fór um Laugaveg í sumar og mætti segja að franska hafi á sumum stöðum verið fyrsta tungumálið. En hvað dregur Frakka svona mikið til Íslands? Bertrand segir að hann hafi oft heyrt af þessu áður, en það komi honum alltaf jafn mikið á óvart þegar hann skoði ferðatölur. Þannig séu franskir ferðamenn aðeins um 6% þeirra sem hingað komi og þannig hafi það verið síðan hann kom hingað fyrir um 25 árum. Segir hann ástæðuna mögulega liggja í því að Frakkar séu eins og Þjóðverjar, þ.e. ferðist í lengri tíma í hvert skipti og þá vilji þeir heldur ekki vera mikið á sama staðnum, heldur ferðast um.

Þá segir hann Frakka líka Ítölum og Svisslendingum með að þeir eigi mikið af fjöllum heima fyrir og þar sé mikil hefð fyrir því að ganga lengri leiðir eða á fjöll, meira en á mörgum öðrum stöðum í Evrópu. Þeir séu því vanir löngum ferðum og sæki í gönguferðir á hálendinu umfram margar aðrar þjóðir.

Veltan aukist um 80% á 4 árum og er nú 1,5 milljarðar

Ferðakompaníið hefur ekki farið varhluta af þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem hefur verið hér á landi undanfarin ár. Bertrand segir að fjölgun ferðamanna og veltuaukning hafi verið stöðug síðustu árin, en þó mest árið 2013. Samkvæmt ársreikningi jókst veltan það ár um rúmlega 40%, en Bertrand segir að í fyrra og í ár hafi hún aukist á bilinu 12-14%. Árið 2012 var veltan um 840 milljónir og fór upp í tæplega 1,2 milljarða árið 2013. Miðað við áætlun þessa árs er ekki ólíklegt að hún fari yfir 1,5 milljarða, en það þýðir að hún hefur aukist um rúmlega 80% á fjórum árum. 

Þegar Bertrand er spurður út í hvernig hafi verið að takast á við þessa stækkun segir hann að þetta sé að hans mati frekar mikið. „Mætti vera minna til að ná að halda vel utan um þetta. Það er ekki æskilegt að fá 40% aukningu á hverju ári,“ segir hann og bætir við að undanfarin ár hafi verið talað um það hjá fyrirtækinu að þessi stækkun geti ekki gengið endalaust. „En núna erum við búin að segja það í 4 ár,“ segir hann og hlær. Bertrand segir að þegar veltan aukist svona mikið þurfi að huga sérstaklega vel að gæðum þjónustunnar og það sé helsta áskorunin þegar vel gengur. Því hljómi 40% aukin velta á ári ekki of vel í hans eyrum.

Vöntun á sérhæfðum leiðsögumönnum

Samhliða fjölgun viðskiptavina hefur starfsmönnum fyrirtækisins fjölgað mikið. Í dag eru um 25 manns á skrifstofu þess allt árið, en til viðbótar bætast um 15 starfsmenn í vöruhúsi yfir sumartímann og með leiðsögumönnum og ökumönnum verður heildarfjöldinn um og yfir 100 þegar mest lætur. Það er þó eitt vandamál sem Bertrand segir að hafi alltaf fylgt fyrirtækinu. Það sé skortur á menntuðum leiðsögumönnum sem kunni frönsku. Segir hann að í gegnum árin hafi það verið gegnumgangandi að þeir hafi þurft að fá fjölda leiðsögumanna frá Frakklandi til sín. Margir hafi komið ár eftir ár og jafnvel unnið hér á sumrin í 10-20 ár.

Jákvæðar og neikvæðar hliðar ferðamannastraumsins

Sá aukni fjöldi ferðamanna sem hingað hefur komið til lands hefur þó að hans sögn verið mjög jákvæður. Bendir hann á að undanfarin ár hafi ítrekað verið sagt að Íslendingar væru að missa tökin á ferðaþjónustunni, en samt sé það upplifun hans og fleiri sem vinni í greininni að flest allt gangi vel frá degi til dags. Þá sé ábatinn mikill fyrir íslenskt þjóðfélag og hafi gert mikið fyrir samfélagið á erfiðum tímum efnahagslega.

Bertrand segir þó ekki allt vera jákvætt við þennan aukna straum ferðamanna. Segist hann hafa horft á íslenskt samfélag síðustu áratugi örlítið með augum útlendings, þó hann hafi búið hér lengi og eigi nú konu og þrjú börn. Þannig telji hann þróunina á mörgum veitingastöðum og verslunum varhugaverða, en á sumum stöðum sé jafnvel farið að merkja hluti og gefa upplýsingar aðeins á ensku. Segir hann þetta geta leitt til þess að heimamenn fari að upplifa sig eins og útlendinga á eigin heimili og það sé mjög slæmt. Vísar hann sem dæmi í nokkra ferðamannastaði í Frakklandi þar sem þessi þróun hafi orðið og við það missi staðirnir sterk einkenni.

Þurfum að passa upp á afleiðingarnar

„Þegar ég byrjaði í ferðaþjónustu var oft talað um löndin í þriðja heiminum sem hefði verið rústað af ferðaþjónustu. Við erum bara 300 þúsund hér og þurfum að passa upp á afleiðingarnar,“ segir hann. Það er þó ekki bara einkenni fólks og menningar sem skipti máli, því Bertrand bendir á að í dag séu menn sem horfi til þess að ferðamönnum geti fjölgað upp í um 3 milljónir. Segist hann ekki alveg skilja hvernig það geti endað vel. Þannig sé landið í raun alveg nógu stórt til að taka á móti þessum fjölda, en að náttúran sé of viðkvæm fyrir slíka fjölgun. „Ég er ánægður með að vel gangi, en ég er áhyggjufullur um gang mála,“ segir hann.

Fólk fast í því að vilja fara Laugaveginn

Aukið upplýsingaflæði og umfjallanir erlendis er einnig eitthvað sem Bertrand segir að sé byrjað að vera vandamál hér á landi sem erfitt sé að breyta. Nefnir hann Laugaveginn sem dæmi, en það sé gönguleið sem sé orðin svo vinsæl og stórt nafn að ferðamenn sem hingað komi segist bara vilja fara þar en ekki á neinn annan stað. Þetta sé gönguleiðin sem þeir vilji sjá, jafnvel þótt væntingar þeirra um upplifun á hálendinu séu einnig að vera einn í náttúrunni.

Bertrand segir að það sé fjöldinn allur af flottum gönguleiðum og stöðum á Íslandi. Það sé aftur á móti oft erfitt að selja eitthvað sem ekki innihaldi nafn Laugavegsins. Nefnir hann að í raun sé allt Fjallabak þannig að hægt sé að bjóða ferðamönnum upp á einstaka upplifun þar, en flestir vilji svo fara á sama staðinn af því að þeir lásu um hann í ferðahandbók eða á netinu. Segir hann stöðuna nokkuð þversagnakennda, en að Ferðakompaníið sé ekki eina fyrirtækið sem glími við þetta vandamál og verið sé að leita lausna sem bæði létti á Laugaveginum og uppfylli kröfur viðskiptavinanna.

Það er talsvert utanumhald utan um komu 8.000 ferðamanna í …
Það er talsvert utanumhald utan um komu 8.000 ferðamanna í langar gönguferðir um hálendið. Á sumrin starfa um 15 manns í vöruhúsi félagsins, enda nóg um að vera. Styrmir Kári
Jökulgil við Laugaveginn. Nafn Laugavegsins er að sögn Bertrands orðið …
Jökulgil við Laugaveginn. Nafn Laugavegsins er að sögn Bertrands orðið það stórt meðal göngufólks að það vill jafnvel fara þangað þrátt fyrir að það leiti að því að vera eitt á ferð í óbyggðum, sem erfitt er að upplifa í dag á Laugaveginum. mbl.is/Rax
Tjöld, dýnur og annar viðlegubúnaður er í tuga, ef ekki …
Tjöld, dýnur og annar viðlegubúnaður er í tuga, ef ekki hundraða tali, í vöruhúsinu. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert