Kennarar við Norðlingaskóla segja skólayfirvöld í Reykjavík hafa sýnt ábyrgðarleysi með því að hefja starfsárið án þess að hafa tryggt skólanum nægt fjármagn til að standa undir rekstri.
Þörf skólans fyrir gæslu sé miklu meiri en svo að tíminn finnist óvænt í skoðun á störf einstakra kennara skólans. Ekki sé verið að leita að verkefnaskorti einstakra kennara, verið sé að leita að fólki sem gefur eftir.
Líkt og fram hefur komið hefur nokkuð borið á óánægju meðal grunnskólakennara með að ekki verði greitt sérstaklega fyrir gæslu þeirra á nemendum í frímínútum í öllum tilvikum líkt og tíðkast hefur verið, heldur sé hluti af starfsskyldum um að ræða sem ekki sé greitt aukalega fyrir.
Frétt Morgunblaðsins: Ókyrrð meðal kennara vegna gæslu.
Í yfirlýsingu kennara Norðlingaskóla segir að Reykjavíkurborg hafi keypt bæði forfallakennslu og gæslu af kennurum skólans frá upphafi skólahalds í skólanum. Við gerð núgildandi kjarasamninga hafi sveitarfélögin kosið að hætta því og treysta þess í stað á sérstök kaup gæslu. „Borgin hefur stefnt skólabyrjun allra nemenda skólans í hættu. Að því er virðist vegna þess að hún taldi sig komast upp með það eða í tómu hugsunarleysi,“ segir í yfirlýsingunni.
„Stjórnendur biðla nú til kennara um að bæta á sig verkefnum til að tryggja að börn og foreldrar bíði ekki skaða af framtaksleysi skólayfirvalda. Skólayfirvöld lofa að hafa álag og skólaþróun í huga næstu misseri. Vilji til að verða við slíkum óskum grundvallast á trausti. Reykjavíkurborg hefur því miður glatað trausti kennara skólans á undanförnum árum. Kennarar Norðlingaskóla hafa áður fært fórnir að beiðni skólayfirvalda. Reynslan af því er vægast sagt vond. Stjórnendur Skóla- og frístundasviðs eiga ekki trúnað kennara eftir það sem á undan er gengið,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
Í lok yfirlýsingarinnar nefna kennararnir átta atriði:
1. Sú staða sem upp er komin er að öllu leyti á ábyrgð skólayfirvalda í Reykjavík.
2. Sú bón skólayfirvalda um að kennarar bæti á sig verkefnum ofan á fullt starf er bón um fórn á gæðum skólastarfs.
3. Skólayfirvöld í Reykjavík kusu að gera engar ráðstafanir til að undirbúa eða mæta þeirri stöðu sem upp er komin. Nú er svo komið að nám nemenda er í hættu.
4. Kennarar munu í samráði við skólastjóra beita sveigjanleika til að skóli geti hafist á réttum tíma. Þeir munu einnig mynda teymi fagmanna sem tekur málið að sér fyrir hönd kennara. Teymið mun hafa samráð við stjórnendur skólans til að finna þau verkefni sem fella má út á móti gæslu. Finnist lausn verður hún gerð opinber. Hún mun byggja á sanngirni og faglegum rökum.
5. Verði lausn ekki fundin fyrir 15. september munu kennarar hætta að manna gæslu.
6. Það kemur í hlut Reykjavíkurborgar að leysa þann vanda sem þetta kann að valda varðandi starfsmannabókhald, vinnuskýrslur og fleira.
7. Þessi yfirlýsing verður birt opinberlega.
8. Farið er fram á að skólayfirvöld í Reykjavík fari þegar í þá vinnu að endurheimta traust kennara skólans svo grundvalla megi faglegt starf á þeirri samvinnu sem nauðsynleg er.