Nýnemum sem hófu nám við Menntaskólann í Hamrahlíð í haust var boðið upp á að velja á milli þriggja og fjögurra ára náms til stúdentsprófs.
Um 7% þeirra völdu styttra námið og segir rektor skólans að hugsanlega óttist nemendur að vera ekki nægilega vel undirbúnir fyrir háskólanám eftir þriggja ára framhaldsskólanám, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ný skipan náms til stúdentsprófs tók gildi í haust. Hún felur m.a. í sér að námið er skipulagt sem þriggja ára nám í stað fjögurra áður. Allir framhaldsskólar á landinu, fyrir utan MR og MA, innrituðu nýnema í haust eingöngu samkvæmt þessu skipulagi og í MH höfðu nýnemar áðurnefnt val.