Öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld á grundvelli nýrra útlendingalaga munu fara í gegnum eina stofnun, Útlendingastofnun, nái frumvarp til laganna fram að ganga. Sama mun gilda um kærumál en þau munu öll berast til kærunefndar útlendingamála. Þetta er meðal efnis nýrra útlendingalaga sem kynnt eru á blaðamannafundi í dag en frumvarpið var unnið af þverpólitískri þingmannanefnd í samvinnu við innanríkisráðuneytið.
Markmiðið með frumvarpinu er ekki síst að gera lög um útlendinga aðgengilegri og eru ákvæði frumvarpsins sett fram á einfaldari hátt með orðskýringum. Sömuleiðis er hlutverk stjórnvalda sem sem telgjast málaflokknum skilgreind. Ennfremur er stuðlað að samræmingu á milli laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þá er dvalarleyfaflokkum breytt og skilyrði fyrir dvalarleyfum einfölduð meðal annars til þess að koma til móts við atvinnulífið og vinnumarkaðinn og háskóla- og vísindasamfélagið. Sérstakur kafli snýr að fjölskyldusameiningum og sérstök áhersla á réttindi barna.
Móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd
Kaflar um alþjóðlega vernd hafa verið endurskoðaðir í frumvarpinu og uppfærðir í samræmi við alþjóðlega, evrópska og norræna þróun og aukna kröfu um mannúð og skilvirkni í málsmeðferð og þjónustu. Lagt er til að hætt verði að nota hugtökin hæli og hælisleitandi. Þess í stað verði talað um alþjóðlega vernd og umsækjanda um alþjóðlega vernd. Bætt hefur verið við ákvæði um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og þegar við á útlendinga sem komið hafa með ólögmætum hætti til landsins og fórnarlömb mansals með aukna skilvirkni fyrir augum sem og öryggi og hagsmuni þeirra sem í hlut eiga.
Þá eru settar takmarkanir við því hvenær refsa megi umsækjendum um alþjóðlega vernd vegna ólögmætrar komu til Íslands og/eða fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Kveðið er á um sjálfstæðan rétt ríkisfangslausra einstaklinga til alþjóðlegrar verndar. Ennfremur er lagt til að réttaráhrifum verði sjálfkrafa frestað í öllum málum sem snúa að alþjóðlegri vernd þar sem niðurstaða Útlendingastofnunar hefur verið kærð til kærunefndar útlendingamála þar til niðurstaða liggur fyrir á æðra stjórnsýslustigi.
Þá hafa helstu íþyngjandi úrræði sem stjórnvöld geta beitt vegna framkvæmda laganna verið sett í einn kafla og ákvæði þeirra gerð skýrari til þess að tryggja aukið gegnsæi og réttaröryggi að því er segir í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um útlendinga og er stefnt að því að leggja frumvarpið fram á komandi haustþingi. Frestur til að skila athugasemdum til innanríkisráðuneytisins er til 7. september.