Mikilvægt að snúa vörn í sókn

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, í Gljúfrasteini í dag.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, í Gljúfrasteini í dag. mbl.is/Eggert

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu Þjóðarsáttmála um læsi í Gljúfrasteini í dag. Um er að ræða þjóðarátak sem mennta- og menningarmálaráðuneytið mun vinna í samvinnu við sveitarfélög og skóla með það að markmiði að öll börn geti við lok grunn­skóla lesið sér til gagns.

Fyrr í dag skrifaði Illugi undir með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, en á næstu vikum mun hann ferðast um landið og undirrita sáttmálann með bæj­ar- og sveit­ar­stjór­um. Eru ríki og sveit­ar­fé­lög þá skuld­bund­in til að vinna að því með öll­um til­tæk­um ráðum að ná settu mark­miði um læsi. 

Gott læsi er nauðsyn­legt til að hver og einn geti nýtt hæfi­leika sína til fulls sam­fé­lag­inu öllu til góða,“ seg­ir í sáttmálanum. Þá kemur fram að margt sé vel gert í skólastarfi hér á landi, en það valdi miklum áhyggjum að lesskilningur hafi versnað og að við lok grunnskóla geti stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. „Ástæðan er ekki augljós en vafalaust er um að ræða flókið samspil margra þátta og því mikilvægt að snúa vörn í sókn.

Auk þess kemur fram að fram­lag ráðuneyt­is­ins verði í formi ráðgjaf­ar, stuðnings, lesskimun­ar og auk­ins sam­starfs við for­eldra. Ráðnir verða ráðgjafar um læsi sem munu styðja við lærdómssamfélag skóla og sveitarfélaga, halda námskeið og leiðbeina skóla- stjórnendum, kennurum og öðru skólafólki um læsi og lestrarnám. Markmiðið er að Þjóðarsáttmáli um læsi festist í sessi og verði hluti af almennu skólastarfi til framtíðar.

„Til að ná mark­miði Þjóðarsátt­mála um læsi þarf að grípa til marg­vís­legra aðgerða sem ráðuneytið mun styðja við á ýms­an hátt. Mik­il­væg­ur þátt­ur í því er að ríki og sveit­ar­fé­lög ákveði sam­eig­in­lega að bæta læsi barna á Íslandi til framtíðar. Þar skipt­ir sköp­um skýr mark­miðssetn­ing um ár­ang­ur í læsi, ákvörðun um eft­ir­fylgni og fram­lag skóla­stjórn­enda, kenn­ara, for­eldra og annarra aðstand­enda.“

Menntamálastofnun hefur verið falið að gera tillögu um útfærslu og framkvæmd skimunarprófa fyrir læsi í grunnskóla og breytingar á inntaki samræmdra prófa í samræmi við markmið aðalnámskrár grunnskóla. Jafnframt mun Menntamálastofnun skoða forsendur þess að leggja mat á hæfni sem liggur til grundvallar lestrarnámi 5 ára barna.

Í tengslum við þjóðarátakið gaf ráðuneytið út lagið „Það er gott að lesa“ í flutningi Ingós Veðurguðs á vef sín­um í morgun. Marg­ir kann­ast ef­laust við lagið, sem heit­ir upp­runa­lega „Það er gott að elska“ og er eft­ir Bubba Mort­hens. Sjálf­ur samdi hann nýj­an texta lags­ins, þar sem börn og for­eldr­ar eru hvött til að lesa meira.

Frétt mbl.is: „Það er gott að lesa“

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert