Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, vill að ríkið selji húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands á Laugavegi og lögreglustöðina við Hverfisgötu í miðbæ Reykjavíkur. Í því felist miklir tekjumöguleikar fyrir ríkið og jafnframt sóknarfæri fyrir miðborgina.
Fjárlaganefnd Alþingis fundaði í morgun en hún fór meðal annars yfir verklegar framkvæmdir ríkisins með fulltrúum Framkvæmdasýslu ríkisins. Guðlaugur Þór segist í samtali við mbl.is hafa bókað það á fundi samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, sem er fjármála- og efnahagsráðuneytinu til ráðgjafar um mál sem varða opinberar framkvæmdir, að menn nýti þau sóknarfæri sem felist í því að selja húsnæði Þjóðskjalasafns sem og lögreglustöðina.
Hann segir gríðarlegan fórnarkostnað vera fólginn í því að hafa slíka starfsemi þarna, á miðborgarsvæðinu.
„Ef það eru ekki tækifæri núna fyrir ríkið að taka bæði þessi hús, skipuleggja þau upp á nýtt og selja þau, þá er það aldrei. Það skiptir einnig máli fyrir sjálfa miðborgina okkar, að þessar risabyggingar sem nýtast illa séu ekki þar," segir hann.