Keppast við að veiða fyrir „kvótaáramót“

Höfrungur III.
Höfrungur III. Ljósmynd/HB Grandi

Um næstu mánaðamót verða svokölluð ,,kvótaáramót“ og nýtt kvótaár hefst eftir rétta viku. Menn leggja því kapp á að veiða sem mest af þeim fisktegundum sem þeir eiga eftir kvóta í og hjá togaraflotanum virðist það aðallega vera ufsi. Ævar Jóhannesson, skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK,  og áhöfn hans hafa t.a.m. verið á höttunum eftir ufsa á Vestfjarðamiðum í veiðiferðinni sem nú stendur yfir. Þetta kemur fram á heimasíðu HB Granda.

„Þetta hefur gengið upp og ofan. Við höfum af og til fengið góð ufsaskot en þess á milli hefur botninn dottið úr ufsaveiðinni. Í gærkvöldi fengum við t.d. mjög góða veiði en í dag sést ufsinn ekki. Ég var hér á sömu slóðum fyrir réttu ári og þá var mokveiði á ufsa. Ágústmánuður hefur oft verið mjög drjúgur á Vestfjarðamiðum en ég held að allir séu sammála um að það er minna um ufsa á þessum miðum í dag en mörg undanfarin ár,“ segir Ævar.

Slæmt veður og sjólag hefur ekki auðveldað mönnum sókn á Vestfjarðamiðum að þessu sinni og Ævar tekur svo djúpt í árinni að hann telur að þessi mánuður muni rata í sögubækur fyrir slæma tíð og vont sjólag.

„Veðráttan hefur verið afleit svo til allan ágústmánuð. Það er langt í hafísinn og vindurinn nær sér upp fyrir vikið. Hér eru um 18 m/sek í dag og slæmt sjólag og þótt ég geti ekki sagt nákvæmlega til um ölduhæðina þá var ölduhæðin við Straumnesduflið um sjö metrar fyrir stuttu og sjólagið er svipað í dag. Þetta er því óttalegur skælingur,“ segir Ævar.

Þótt ufsinn sé brellinn þá verður hið sama ekki sagt um þorskinn og karfann á Vestfjarðamiðum.

„Við reynum að vísu að veiða sem minnst af þorski en karfaveiðin er mjög góð á karfaslóðinni. Við fengum t.a.m. mjög góðan karfaafla í Víkurálnum. Þá höfum við aðeins reynt við grálúðu út af Hampiðjutorginu. Til þess að ná árangri á þeim veiðum verða menn að hanga á slóðinni og bíða þess að hitaskil gangi yfir. Það hafa ekki allir tíma til þess og árangurinn er í samræmi við það,“ segir Ævar Jóhannesson en hann reiknar með því að farið verði inn til millilöndunar í Reykjavík nú í vikulokin. Uppgjöri kvótaársins er nefnilega þannig háttað að löndunardagurinn ræður því hvort aflinn er skráður á yfirstandandi kvótaár eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka