Ekki hægt að lenda á Húsavíkurflugvelli

Mærudagar á Húsavík í sumar.
Mærudagar á Húsavík í sumar.

Flugi Flugfélagsins Ernis til Húsavíkur var aflýst í dag vegna þoku. Farþegum var þess í stað keyrt til Akureyrar þar sem flugvél Ernis átti að lenda og sækja farþegana.

Heiðar Halldórsson hjá Húsavíkurstofu segir að sumarið norðan heiða hafi verið nokkuð þokusamt og hefur það komið töluvert niður á áætlunarflugi til Húsavíkur. Þar er ekki hægt að lenda í mikilli þoku þar sem aðflugshallasendir og fjarlægðarmælir eru ekki til staðar á flugvellinum.

Hann segir Húsavíkurstofu, hagsmunasamtök fyrirtækja í ferðaþjónustu og verslun á Húsavík hafa ályktað um málið fyrr í mánuðnum, þar sem farið var fram á við Isavia að fjárfest yrði í nauðsynlegum búnaði þannig að auka mætti áreiðanleika áætlunarflugs til Húsavíkur. Svör hafi hins vegar ekki borist „Við sendum ISAVIA bréf fyrir nokkrum vikum því þetta er búið að vera í umræðunni mjög lengi. Þeir hafa lofað úrbótum en svo hefur ekkert gerst,“ segir Heiðar í samtali við mbl.is

„Þetta kemur sé mjög illa. Hér eiga ferðamenn að koma með flugi og bílar bíða eftir þeim, en svo koma vélarnar ekki.“ Við þetta bætist að á næstu árum er búist við að íbúum á Húsavík fjölgi um 200 þegar kísilver á Bakka verður tilbúið, auk þess sem 700 manns starfi við byggingu verksmiðjunnar á framkvæmdatíma.

„Það eru oft menn sem fara heim í helgarfrí, þannig að ég sé ekki annað en að hér verði gríðarleg aukning í samgöngum allt árið,“ segir Heiðar. „Það að það sé ekki til búnaður á flugvellinum til að lenda þegar það er þoka, það er hræðilegt.“

Hann segist ekki vita hvað sá búnaður sem upp á vanti kosti, en grunar að á því strandi kaupin. Þar að auki segir Heiðar að brautarljósin á Húsavíkurflugvelli séu frá því um miðja síðustu öld, þannig að þörf sé á úrbótum á vellinum.

Heiðar bendir jafnframt á að samkvæmt greiningu Innanríkisráðuneytisins og Isavia frá 2013 sé Húsavíkurflugvöllur þjóðhagslega hagkvæmur og ætti þar með að hafa aðbúnað þannig að flugsamgöngur nýtist sem best þar.

Mærudagar á Húsavík í sumar.
Mærudagar á Húsavík í sumar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert