Félagið Vantrú hefur kært synjun innanríkisráðuneytisins á að afhenda greinargerð um eðli sóknargjalda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar, segir að til greina komi að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum ef ríkið lítur á sóknargjöld sem félagsgjöld.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, fékk Sigurð Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til þess að skýra hvernig líta beri á sóknargjöldin en hart hefur verið deilt um eðli þeirra. Þau hafa verið greidd úr ríkissjóði til trú-, og síðar lífsskoðunarfélaga, frá árinu 1987.
Fulltrúar þjóðkirkjunnar hafa staðið fast á því að um félagsgjöld sé að ræða sem ríkið sjái um að innheimta samhliða tekjuskatti fyrir kirkjuna og aðra söfnuði í landinu. Gagnrýnendur fyrirkomulagsins halda því hins vegar fram að sóknargjöld séu beint framlag ríkissjóðs til félaganna enda sé skattprósenta fólks ekki breytileg eftir því hvort það sé meðlimir í trú- og lífsskoðunarfélagi eða ekki.
Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, í fyrra virtist síðarnefndi skilningurinn vera staðfestur. Þar kom fram að engin sérgreind sóknargjöld séu innheimt af ríkinu, hvorki af þeim sem greiði tekjuskatt né þeim sem séu undir skattleysismörkum, heldur séu framlög vegna sóknargjalda greidd úr ríkissjóði af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins óháð innheimtu tekjuskatts. Þetta komi meðal annars fram í því að framlögin séu greidd úr ríkissjóði þrátt fyrir að um þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Þessar greiðslur teljast vera lögbundin framlög.
Vantrú óskaði eftir að sjá greinargerð Sigurðar um sóknargjöldin með bréfi til ráðuneytisins í febrúar. Ráðuneytið hafnaði því hins vegar með bréfi um miðjan júlí á þeim forsendum að greinargerðin væri gagn sem tekið hefði verið saman fyrir ráðherrafundi vegna stefnumótunar og samráðs sem nú fari fram um sóknargjöldin. Hún sé undanskilin ákvæðum upplýsingalag um rétt almennings til aðgangs að þeim.
Mbl.is óskaði eftir að fá greinargerðina afhenta en ráðuneytið gat ekki gefið svar við því í dag hvort að orðið yrði við þeirri beiðni.
Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar, segir að félagið hafi kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Verði það niðurstaðan að ríkið líti á sóknargjöld sem félagsgjöld gæti félagið látið reyna á lögmæti þeirra fyrir dómstólum.
„Það kemur til greina að krefjast þá endurgreiðslu á ofgreiddum tekjuskatti á þeim forsendum að ef sóknargjöld eru félagsgjöld þá eru þeir sem eru utan trúar- og lífsskoðunarfélaga að greiða sama félagsgjald og allir aðrir þrátt fyrir að vera ekki í neinu félagi sem fær félagsgjöldin afhent. Þar af leiðandi er greiðslan bara aukaskattlagning þar sem hún rennur ekki í trúfélag,“ segir Sindri.
Verði hins vegar viðurkennt að sóknargjöldin séu aðeins framlög eða styrkur frá ríkinu til trú- og lífsskoðunarfélaga segir Sindri að það sé eitthvað sem lýðræðislega kjörin stjórnvöld geti ákveðið að gera.
„Það sem gengur ekki er að kalla þetta öðru nafni en þetta er,“ segir hann.
Sindri hefur því sent innanríkisráðherra bréf þar sem hann óskar eftir svörum hennar um hvort sóknargjöld teljist félagsgjöld eða beint framlag úr ríkissjóði til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort tilefni sé til að beina kröfugerð að ríkinu eða ekki.
Fyrri fréttir mbl.is: