Ungir umhverfissinnar gagnrýna setningarhátíð Ljósanætur í Reykjanesbæ en þar stendur til að sleppa 2.000 helíumblöðrum. Þrátt fyrir að þær séu úr hreinu latexi taki þær tíma til að brotna niður og geti skaðað lífríkið. Framkvæmdastjóri Ljósanætur segir mjög líklegt að viðburðurinn verði endurskoðaður fyrir næsta ár.
Grunnskólabörn og elstu deildir leikskóla í Reykjanesbæ munu sleppa um 2.000 marglitum helíumblöðrum á setningarhátíð Ljósanætur á fimmtudag eftir viku. Athöfnin á að vera táknræn um fjölbreytileika mannkynsins. Bjartmar Alexandersson, formaður Ungra umhverfissinna, segir samtökin fyrst og fremst hafa áhyggjur af plastmenguninni sem hlýst af blöðrunum.
„Plastið fer á víð og dreif, sérstaklega í sjóinn. Það er þar sem það leysist upp í minni agnir og endar síðan í fæðukeðjunni okkar,“ segir Bjartmar.
Dýr festist í plastinu eða éti þannig að þau kafna á því eða svelta þegar það fyllir meltingarveg þeirra. Ungir umhverfissinnar ályktuðu um málið í fyrra.
Auk þess er helíum endanleg auðlind. Takmarkað magn af helíumi er að finna á jörðinni og það er svo létt að það svífur út úr lofthjúpnum og út í geim ef því er sleppt. Efnið er meðal annars notað í segulómunartæki á sjúkrahúsum og í ofurleiðara.
„Að nota það til að fylla blöðrur er ekki alveg besta nýting í heimi á helíumi,“ segir Bjartmar.
Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ljósanætur, segir að umræða hafi farið fram innan bæjarkerfisins um blöðrurnar en ákveðið hafi verið að halda í viðburðinn í ár. Blöðrurnar séu úr hreinu latexi og þær brotni niður í náttúrunni. Spottarnir eru einnig úr umhverfisvænum efnum.
„Helíumið er af skornum skammti. Við viðurkennum það enda sjálfsagt að endurskoða þetta. Þessi umræða var tekin í vetur og ákveðið að halda sig við blöðrurnar í þetta sinn en það er mjög líklegt að þetta verði endurskoðað,“ segir hún.
Bjartmar bendir á móti á að jafnvel þó að blöðrurnar séu úr hreinu latexi hafi þær áhrif á lífríkið, sérstaklega í sjónum, á meðan þær brotna niður.
„Þó að þær brotni niður innan árs sem er topptíminn á bestu blöðrunum sem til eru, þá geta þær samt valdið skaða þetta ár. Þær brotna náttúrulega í smærri agnir sem fer inn í lífríkið. Þó að það sé náttúrulegt fer það beint inn í fæðukeðjuna. Það er erfitt að vera á móti þessu því þá er maður leiðinlegi gaurinn, maður er á móti að gera eitthvað skemmtilegt, en spurningin er hvað kosta þessi skemmtilegheit?,“ segir hann.
Allar rannsóknir bendi til þess að mannkynið gangi hratt á náttúruauðlindir jarðarinnar. Bjartmar bendir á að nú noti menn jafngildi tveggja til þriggja jarða af auðlindum á ári.
„Við getum bara ekki haldið áfram að leika okkur eins og fyrri kynslóðir hafa gert ef við ætlum að halda áfram að nýta plánetuna eins og við erum að gera. Þetta er hugarfarsbreyting sem vantar að koma að hjá fólki,“ segir hann.
Á fimmtudaginn verður setning á ljósanótt 2015"Nemendur úr öllum grunnskólum bæjarins og elstu deildum leikskólanna,...
Posted by Ungir umhverfissinnar on Sunday, 23 August 2015