Þórgnýr Thoroddsen, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, segir hugmyndina um gjaldtöku í Nauthólsvík ekki nýja af nálinni en greiða þarf aðgang að aðstöðunni þar yfir vetrartímann. Nú er rætt um að gestum verði gert að greiða fyrir búningsaðstöðu og fleira yfir sumartímann.
Hann segir mikinn kostnað fylgja rekstrinum í Nauthólsvík en ylströndin er gríðarlega vinsæl meðal borgarbúa. Til að mynda þurfi að tæma og hreinsa heita pottinn þar á hverri vakt auk þess að þrífa þarf búningsaðstöðu.
Á veturna greiða gestir 500 krónur fyrir að nýta sér aðstöðuna en Nauthólsvíkin er mikið notuð af sjósundsfólki allan ársins hring. Eins er hægt að kaupa kort sem er ódýrara en að greiða fyrir hverja heimsókn.
Sumarið 2000 var ylströndin tekin í notkun og sumarið á eftir var tekin í notkun þjónustumiðstöð á svæðinu. Þar er búnings- og sturtuaðstaða fyrir baðgesti og þar er jafnframt veitingasala.
Fyrir framan þjónustumiðstöðina er löng setlaug sem er um 38°C heit. Í flæðarmáli strandarinnar er uppstreymispottur til hitunar á lóninu sem jafnframt er íverustaður. Sumarið 2012 var opnað eimbað í Nauthólsvík.
Í greinargerð sem fylgdi með tillögunni um gjaldtöku kemur fram að Reykjavíkurborg greiði þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt sé að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.